139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[13:48]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eitthvað er nú hálfdapurlegt andrúmsloftið í Alþingishúsinu í dag. Svo virðist vera að allt loft sé farið úr þessu stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar, því að leggja skuldir einkabanka á herðar íslensku þjóðinni. Síðasti gjalddaginn er árið 2046 og er um framlengingu að ræða frá árinu 2030 í fyrri samningi. Nú er eins og einhverjir aðilar hafi gefist upp í því langhlaupi að verja hagsmuni þjóðarinnar. Sjálfstæðismenn skiptu um skoðun í gærmorgun, er mér sagt. Nú eru sósíaldemókratar sjálfstæðismanna orðnir sætasta stelpan á ballinu, Sjálfstæðisflokkurinn logar stafnanna á milli.

Ég var að lesa áður en ég kom í ræðustól viðtal við framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins. Það eru tugir ef ekki hundruð manna búin að segja sig úr þessum gamalgróna flokki sem hefur oft og tíðum staðið með íslensku þjóðinni. Það er ef til vill verið að marka ný og merkileg spor í þjóðarsögunni með þessari kúvendingu nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Við sjáum alveg hvernig öðrum sjálfstæðismönnum líður hér í dag. Það er ekkert ofboðslega hátt risið á mörgum, en við getum ekki vænst þess heldur að risið sé hátt á samfylkingarfólki eða vinstri grænum því að það hefur verið einbeittur vilji þessara flokka að koma þessu yfir á íslenska skattgreiðendur.

Upphæðir hafa verið ræddar í því samhengi, munurinn á þeim samningi sem fór í þjóðaratkvæðagreiðslu í byrjun síðasta árs og þessum samningi. En það dugar ekki til að Framsóknarflokkurinn, Indefence, forseti Íslands og síðast en ekki síst þjóðin sjálf sparaði sjálfri sér og öðrum skattgreiðendum 430–450 milljarða. Þessi samningur, svona breyttur og kominn hingað inn í þingið, er jafnólöglegur og hinir fyrri tveir. (Gripið fram í.) Það er eitt af því sem ríkisstjórnin getur ekki skilið. Er ekki hægt að koma því inn í systemið hjá henni að okkur beri ekki lagaleg skylda til að greiða þessar upphæðir? Það er háalvarlegt mál þegar ríkisstjórn í fullvalda ríki gengur fram með þessum hætti. Það hafa heldur ekki fengist nein rök fyrir því hvers vegna ríkisstjórnin er að leggja það til að leggja þetta á herðar íslensku þjóðinni.

Stundum hefur verið talað um að þetta sé kannski gjaldið fyrir það samviskubit sem Íslendingar hafa vegna þess að hér störfuðu bankagangsterar, það hefur hvergi komið fram. Ef þetta á að byggjast á tilfinningarökum, það að leggja þetta á íslensku þjóðina, verður það að koma nákvæmlega fram í hverju þau rök felast.

Ekki ber ég ábyrgð á því sem þessir menn gerðu í aðdraganda bankahrunsins en við skulum átta okkur á því að það var m.a. meðvirkni Íslendinga allra sem felldi bankana. Fremstir í flokki voru líklega snjallir markaðsfræðingar því að hér glumdu í aðdraganda bankahrunsins þau orð að ekki mætti gagnrýna bankana, hótanirnar voru: Viljið þið að bankarnir fari úr landi? Talað var um að erlendir sérfræðingar sem gagnrýndu þessa tæru snilld þyrftu að fara á námskeið, þyrftu jafnvel að fara í endurhæfingu.

Í aðdraganda bankahrunsins var logið. Í aðdraganda bankahrunsins var sagt ósatt. Í aðdraganda bankahrunsins var einhvern veginn hægt að gera alla meðvirka þannig að allir áttu að taka þátt í partíinu.

Frú forseti. Því miður er tilfinning mín í þessu Icesave-máli sú sama og leiddi til bankahrunsins, þessi gífurlega meðvirkni utan úr samfélaginu. Það skal á það minnst að ASÍ og Samtök atvinnulífsins hafa í þriðja sinn skilað inn umsögn í tengslum við þetta mál, skilað inn eindreginni ósk um að gera Icesave strax upp, annars fari allt í kaldakol. Er þetta nú ekki orðið svolítið þreytt tugga? Og hugsa sér að ASÍ, sem fer líklega fyrir einum 115 þúsund Íslendingum, á að standa hér í hagsmunagæslu fyrir bættum kjörum — gott að minnast á það vegna þess að allir samningar eru lausir — sé í fararbroddi í þjóðfélaginu, stjórn ASÍ, og hafi hamrað á því alla tíð að við skulum standa skil á þessum gerviskuldbindingum. Hver er að hugsa um fjölskyldurnar í landinu þegar forseti ASÍ skrifar undir umsögn af þessu tagi til fjárlaganefndar? Mér finnst þetta skrýtin stærðfræði, en svona er meðvirknin í þessu máli. Ég kom inn á það hér í ræðu minni í gær að mér finnst þessi meðvirkni hafa keyrt úr hófi fram. Verkfærin eru til, við þekkjum þau síðan árið 2007. Það eru hótanirnar og það eru þessar dómsdagsspár, að allt fari á annan endann nema farið verði að vilja þess meiri hluta sem nú situr.

Sú staðreynd verður lengi í minnum höfð að ríkisstjórn Íslands, fyrsta hreina vinstri stjórnin, skuli hundsa þjóðaratkvæðagreiðslu. Samt eru þessir flokkar báðir með á stefnuskrá sinni stóran kafla um að efla eigi lýðræðisumbætur, setja þjóðaratkvæðagreiðslur í eðlilegt ferli, taka upp persónukjör. Þegar þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave fór fram, þann 6. mars sl., var það hvorki meira né minna en svo að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hvöttu fólk til að vera heima, hvöttu fólk í lýðræðisríki til að nota ekki þann rétt sem allir hafa. (PHB: Þau lengi lifi.) — Hv. þm. Pétur Blöndal kallar hér fram í: Þau lengi lifi. Ég ætla ekki að segja neitt um það en þetta er eitt af því sem hefði átt að komast í heimsfréttirnar, sér í lagi þegar þessir sömu flokkar, þessir sömu forsvarsmenn, halda svo kosningar til stjórnlagaþings sem öllu áttu að breyta og þær eru dæmdar ógildar og einungis 36% landsmanna kusu þrátt fyrir gífurlega kynningu.

Ríkisstjórninni eru mjög mislagðar hendur og ég trúi því að þessi dagur og þessi mánuður, því að þetta er 2. umr. og svo á málið eftir að koma hér inn til 3. umr., eigi eftir að marka djúp spor í þjóðarsálina. Þeir aðilar sem ætla að segja já við þessum samningi vita mætavel að þeir eru ekki með þjóðina á bak við sig. Enn á ný hefur myndast gjá milli þings og þjóðar. Ég er stolt af því að vera framsóknarmaður. Ég er stolt af því að ætla að segja nei í atkvæðagreiðslu á eftir. Og ég ætla líka að segja nei í atkvæðagreiðslunni sem fer fram eftir 3. umr.

Ég tek ekki þátt í því að koma þessum skuldbindingum á þjóðina sem ekki nokkur einasti lagalegur grundvöllur er fyrir. Ég segi það enn á ný: Ég er svo undrandi að þetta mál skuli vera komið hér aftur fyrir þingið.

Mig langar til að vísa í grein í Financial Times sem birtist 13. desember árið 2010, með leyfi forseta:

„Icesave-samningurinn ýtir undir þá tilhneigingu sem nú ríkir að veita bönkum ótakmarkaða ríkisábyrgð. Í þessu tilviki er hæpið að tala um lagaleg rök fyrir þörfinni á tryggingum og því síður verða færð sanngirnisrök fyrir henni. Ríkisstjórnir Bretlands og Hollands mundu aldrei verða við kröfum erlendra innstæðueigenda sem næmu þriðjungi af þjóðarframleiðslu ef einn af stóru bönkunum félli.“

Þarna er breskt fjármálatímarit að lýsa þjóðarsál Breta og Hollendinga. Hvers vegna er verið að leggja byrðar sem Bretar og Hollendingar mundu sjálfir hafna á okkur hér í Norðurhöfum og leggja þetta á okkur þegar vitað er að við erum fá og eigum erfitt efnahagslega eftir fjármálahrunið? Það er spurning sem ríkisstjórnin verður að svara.

Við vitum að Evrópusambandið ágirnist okkur. Við erum strandríki, við erum lykillinn fyrir Evrópusambandið inn á norðurslóðir, við erum nokkuð dýrmætur moli fyrir Breta og Hollendinga og Evrópusambandið. En til þess að þeir geti nálgast okkur, því að þjóðin er svo klár og vel upplýst, þarf fyrst að knésetja okkur. Við stöndum í stríði.