139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:04]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum enn á ný hið svokallaða Icesave-mál sem er alveg gríðarlega umfangsmikið og flókið. Það er alveg greinilegt að við förum að sjá fyrir endann á því miðað við hvernig mál hafa þróast hér í þinginu. Framsóknarmenn hafa látið sig þetta mál miklu skipta og hafa verið mjög einbeittir í öllum málflutningi, eins og stjórnarandstaðan í gegnum ferlið allt. Ég tel að það hafi náðst alveg gríðarlega mikill árangur í þessu máli eftir því sem það hefur þróast. Á sínum tíma þegar Icesave-málið hófst var alveg ljóst að það voru miklar upphæðir sem um var að tefla, hundruð milljarðar króna áttu að lenda á íslenskum skattgreiðendum. Málið var því mjög viðkvæmt og öll umræða um það mjög harðdræg.

Ég ætla ekki að rekja allt ferlið en það var saga til næsta bæjar þegar forseti Íslands neitaði að undirrita lög sem komu frá Alþingi. Það var í annað skipti sem forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, gerði þetta. Hann gerði það líka við fjölmiðlalögin á sínum tíma. Þetta var því allt saman mjög sögulegt.

Stjórnarandstaðan og fleiri í samfélaginu börðust hart fyrir því að málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu og sú varð reyndin. Allir vita hvernig hún fór, eins og ég orðaði það á sínum tíma kom feitt nei út úr henni. Sú er hér stendur færði rök fyrir því að með slíku feitu nei-i mundi samningsstaða Íslands batna. Ég held eftir á að hyggja að það hafi verið alveg rétt mat, samningsstaðan batnaði allverulega.

Síðan náðist samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu, sem var mjög skynsamlegt á sínum tíma, að sameinast um samninganefnd og senda hana af stað til að reyna að ná betri samningum. Framsóknarflokkurinn tók þátt í því, hafði m.a. áhrif á hver var valinn til forustu í þeirri samninganefnd, Lee Buchheit, og átti líka fulltrúa í samninganefndinni, Lárus Blöndal. Það er síðan túlkunaratriði hvað það þýðir að fara af stað í samninga. Þýðir það að maður ætli að taka því sem að höndum ber eða ekki? Alla vega tel ég að ef maður fer af stað til samninga sé maður að reyna að ná samningum, þ.e. þótt maður haldi til haga fyrirvaranum um að það sé lagaleg óvissa hvort við eigum að borga þetta yfirleitt þá eru samt ákveðin skilaboð fólgin í því að sameinast um samninganefnd til að reyna að ná samningum. Ef menn eru algjörlega stífir á þeirri skoðun að við eigum ekki að borga eitt einasta sent í þessu þá spyr ég: Til hvers var verið að senda einhverja samninganefnd af stað í samstarfi allra flokka? Þarna var sleginn ákveðinn tónn að mínu mati um að menn vildu gjarnan ná samningum og auðvitað sem bestum. Þetta voru ekki skilaboð um að við ætluðum ekki að borga eina einustu krónu út af lagalegri óvissu. Við héldum því samt til haga.

Síðan kemur niðurstaðan. Sumir segja að hún sé ómöguleg en langflestir segja að hún sé mjög góð, miklu betri en niðurstaðan sem var á borðinu í Icesave 1 og 2 ef þannig má að orði komast. Það er búið að reikna það út að líklega lendir 47 milljarða kostnaður á okkur, þetta eru háar tölur en miklu lægri en upp undir 500 milljarðar, meira en tíu sinnum lægri upphæð. Það er svolítið merkilegt að lesa það þegar búið er að brjóta niður þessar greiðslur, annars vegar upp á 47 milljarða sem við stöndum með núna og hins vegar þær greiðslur sem átti að greiða samkvæmt fyrri Icesave-samningi sem samþykktur var 30. desember 2009. Ef maður deilir þeim greiðslum niður á árin sést að árið 2016 átti að greiða 25 milljarða, 2017 50 og reyndar 50 milljarða á ári í sjö ár, svo 2024 átti að greiða 25 milljarða. Það er því mjög skrýtið að sjá tölurnar á blaði, 47 milljarða sem við erum núna að tala um eða 25, 50, 50, 50, 50, 50, 50, 50 og 25 milljarða. Það er gríðarlega mikill munur á upphæðunum. Þessir samningar eru miklu betri.

Nú stöndum við frammi fyrir því að svara spurningunni: Er hægt að fá enn þá betri samninga? Er hægt að fara af stað aftur og segja: Æi, þetta var nú ekki alveg nógu gott, við viljum taka einn snúning á þessu aftur og reyna að lækka þetta aðeins af því að okkur finnst þetta heldur hátt, þessir 47? Það er mikil óvissa o.s.frv. Það er góð spurning en mitt mat er að það sé afar ólíklegt að við náum betri samningi. Ég vil ekki nota orðið útilokað en ég held að það sé mjög nærri því. Það er afar ólíklegt að við fengjum betri niðurstöðu eftir allt sem á undan er gengið.

Að þessu sögðu tel ég að það séu tveir kostir í stöðunni, það er annaðhvort að segja: Við erum búin að fara eins langt og við gátum í þessu, eða að segja: Okkur hefur snúist hugur, við viljum ekki greiða þetta, við ætlum að fara fyrir dómstóla af því að við teljum að það séu miklar líkur á því að málið vinnist fyrir dómstólum. Og þá borgum við ekki neitt. Það væri ekkert vit í öðru en að gera það.

Ef maður fer að meta þessa tvo kosti telur a.m.k. sú er hér stendur að það séu talsvert miklar líkur á því, ég verð bara að segja það hreint út, að slíkt mál tapist. Það er mitt mat. Og það er vegna þess hvers eðlis málið er. Það eru svo gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir bankakerfið í Evrópu að þó að það sé tilfinning mjög margra að það sé hryllilega óréttlátt að við, skattborgarar Íslands, séum að greiða áföll sem bankakerfi okkar varð fyrir sem er ekki á okkar ábyrgð finnst mér ólíklegt að málið ynnist af því að þá væri allt bankakerfið í Evrópu undir. Þetta voru einkaaðilar sem gerðu mistök, það finnst okkur, en þrátt fyrir það tel ég mjög ólíklegt að dómstóllinn sem færi með málið mundi láta þá stöðu koma upp að við ynnum. Það er kalt mat mitt í þessari stöðu, það er aldrei hægt að sanna neitt í þessu. Ég get ekki sannað að ég hafi rétt fyrir mér, aðrir geta heldur ekki sannað að við mundum vinna málið, ekki nema það fari þá til dómstóls. En ég tel litlar líkur á því að málið vinnist og það séu sem sagt meiri líkur á því að það tapist, því miður.

Heildarmat mitt er að það sé ólíklegt að ná betri samningum og það sé mjög áhættusamt að fara með málið lengra, til dómstóla. Hins vegar hefði verið mjög gott að hafa meiri bakstuðning frá þjóðinni. Þjóðin er mjög klofin í málinu. Það hefði verið æskilegt ef náðst hefði meiri sátt um það hjá þjóðinni, ég finn að svo er ekki þó að það sé vissulega að skapast nokkuð breið pólitísk samstaða, má segja, hér í þinginu um málið eftir að sjálfstæðismenn upplýstu, a.m.k. flestir þeirra, að þeir mundu styðja samningana.

Ég mun að öllum líkindum sitja hjá í þeirri atkvæðagreiðslu sem fer fram seinna í dag. (Gripið fram í.) Og það er vegna þess að ég sé ekki skárri kost í stöðunni, ef ég á að vera alveg hreinskilin. Og fyrir mér væri það að greiða nei-atkvæði atkvæðagreiðsla sem fæli í sér að ég sæi einhverja betri leið, miklu betri leið.

Virðulegi forseti. Þetta mál er þess eðlis að ég sé hana því miður ekki. Ég ber hins vegar mikla virðingu fyrir þeim sem greiða atkvæði gegn þessum samningi og ég skil þá alveg. Þeir hafa þá fært rök fyrir því að það sé til önnur betri leið. En ég hefði ekki getað fært rök fyrir því fyrir mitt leyti og mun því að öllum líkindum sitja hjá við atkvæðagreiðslu seinna í dag.

Síðan held ég að það sé mjög mikilvægt að þetta mál sé frá, hvernig sem það fer. Þó að það virðist liggja í augum uppi núna að það verði samþykkt hér á næstu dögum held ég að það sé mjög mikilvægt að við einhendum okkur í áframhaldandi vinnu við að efla atvinnulíf og koma þjóðinni áfram. Við getum þá lagt þetta mál að baki þó að það séu engin rök fyrir því að taka þá afstöðu til málsins af því að fólk er orðið þreytt á því. Það eru engin rök og sú er hér stendur er ekki að taka afstöðu á þeim grunni, alls ekki. Það er bara kalt mat að það sé ólíklegt að ná betri samningum og það séu meiri líkur en minni að málið tapist fyrir dómstólum.