139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:32]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það vakti athygli mína í upphafi málsins að hann minntist á þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er í samræmi við þær tillögur sem fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, Styrmir Gunnarsson, hefur sent þingflokki sjálfstæðismanna. Þannig geti þeir hugsanlega bjargað ærunni, eins og hann orðar það, í þessu máli.

Hv. þingmaður minntist á að fjárlaganefnd þyrfti að kanna betur lagalegan grundvöll málsins, ef ég skildi hann rétt, hann leiðréttir mig ef ég hef ekki náð því rétt, að efasemdir væru um að Íslendingar ættu yfir höfuð að borga og ekki hefði farið fram mat á þeirri áhættu í fjárlaganefnd. Ef ég skildi þingmanninn rétt óskaði hann eftir að fjárlaganefnd kæmi saman og færi yfir málið. (Gripið fram í.) Ég vildi segja … ég hef þá misskilið þingmanninn … vegna þess að þetta er eitthvað sem hv. þm. Pétur H. Blöndal óskaði líka eftir að yrði gert — eða þá bara hann einn ef þingmaðurinn hefur ekki óskað eftir því. En þingmenn Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd studdu ekki þá tillögu mína að gert yrði ítarlegt mat á áhættunni af því að höfða mál og afleiðingum þess. Mér finnst þetta stór punktur.

Ég spyr þá þingmanninn: Hver er skoðun hans á þessu? Hefði að hans mati þetta mat ekki átt að fara fram? Hefðum við ekki átt að gefa okkur aðeins betri tíma og velta upp öllum þeim mögulegu málum eða atriðum sem hefðu getað komið upp hefðum við látið reyna á málið fyrir dómstólum?