139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[14:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst gaman að sjá hversu mikill áhugamaður hv. þingmaður er um Sjálfstæðisflokkinn. Við hljótum að fagna slíkum áhuga. Hann hefur sömuleiðis gaman af því að fá bréf og það er bara mjög ánægjulegt. Það minnir mig á að það er nú frekar langt síðan ég hef fengið bréf, alla vega svona sendibréf, maður fær hins vegar mikið af tölvupóstum en það er nú aukaatriði. Ég held að menn þurfi eitthvað að skoða Sjálfstæðisflokkinn betur ef þeir telja að það séu einhverjir aðilar, sama hvar þeir eru, sem stýri flokknum aðrir en forustan. Þeir sem eru í forustu fyrir flokkinn eru fjölmargir, bæði á þingi og í sveitarstjórnum. En það er allt saman aukaatriði.

Ég nálgast málið bara eins og allir aðrir hv. þingmenn eða það vona ég. Við erum hér með mjög erfitt úrlausnarefni. Þetta er ekkert öðruvísi. Það er enginn kostur góður. Þetta snýst um það hvaða skásta kost við veljum fyrir hönd Íslands. Við höfum séð að þær þjóðir sem við eigum í deilum við skirrast ekki við að gæta hagsmuna sinna og ekki er prinsippunum fyrir að fara (Gripið fram í: Betur en Íslendingar.) — hv. þingmaður kallar: Betur en Íslendingar. Það má til sanns vegar færa og oft hefur verið um að ræða fullkominn barnaskap hjá hæstv. ríkisstjórn þegar komið hefur að því að gæta hagsmuna Íslands. Ég tók meðal annars þetta mál sem er stórmál — sem ráðherra fór ég sjálfur og átti erindi við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins út af máli sem tengdist íslenskum hagsmunum og mér er fyrirmunað að skilja af hverju það er ekki gert í þessu tilfelli.

Í lok atkvæðagreiðslu, virðulegi forseti, þurfum við að taka afstöðu. Ég mun gera það eins og allir aðrir þingmenn, vona ég, eftir bestu sannfæringu og vera búinn að vega það og meta hvað er best að gera fyrir íslenska þjóð. Það er held ég sú nálgun sem við öll erum með, en við skulum frekar fara hægar í sakirnar og fara betur yfir málið en fara hratt og taka illa ígrundaða (Forseti hringir.) ákvörðun.