139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

dómstólar.

246. mál
[14:44]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Hér er til 3. umr. frumvarp til laga um breyting á lögum um dómstóla, nr. 15/1998, með síðari breytingum, m.a. breytingum sem gerðar voru við 2. umr. málsins. Frumvarpið varðar fjölgun dómara og fleiri atriði. Allsherjarnefnd hefur fjallað mjög ítarlega um málið, tók það fyrir milli 2. og 3. umr. og fékk á sinn fund Ingveldi Einarsdóttur, formann Dómarafélagsins. Á fundinum mælti Ingveldur Einarsdóttir eindregið fyrir því að komið yrði á fót millidómstigi sem löngum hefur verið í umræðunni og er mikil samstaða um meðal lögfræðinga en sagði jafnframt að meðan því yrði ekki komið á fót yrði að leysa þann vanda sem uppi væri hjá dómstólunum vegna mjög vaxandi málafjölda.

Ég vil líka vekja athygli á því að millidómstig eitt og sér mundi ekki leysa þennan vanda, hvorki fyrir héraðsdómstólana né Hæstarétt einn, tveir og þrír þótt því yrði komið á fót á morgun.

Varðandi tillögur sem höfðu komið frá Hæstarétti fyrir 2. umr. málsins taldi hún þær allar varða innri starfsemi réttarins og að Hæstiréttur væri best dómbær um hvað færi best í hans innri starfsemi. Hún nefndi m.a. að dómstjórar í héraðsdómi væru kosnir til fimm ára. Hún sagði að breytingar í þá veru væru rökréttar og ég get tekið undir orð hennar. Fleiri gestir höfðu áður tekið í sama streng.

Meiri hluti allsherjarnefndar, Atli Gíslason, Mörður Árnason, Valgerður Bjarnadóttir, Álfheiður Ingadóttir og Þráinn Bertelsson, mæla fyrir breytingartillögu nú þar sem segir, með leyfi frú forseta:

„Í stað orðanna ,,1. janúar 2011“ í b-lið 3. gr. (45. gr.) komi: 1. mars 2011.“

Breytingin helgast af því að frumvarpið varð ekki að lögum fyrir áramót eins og stefnt var að. Þetta er held ég að mati allra sem hafa komið að þessu máli aðkallandi mál sem langflestir eða allir eru sammála um að verði að lögum þótt ágreiningur hafi verið um einstakar breytingar sem fram hafa komið.