139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

dómstólar.

246. mál
[15:01]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að gefnu tilefni, vegna ræðu hv. þm. Birgis Ármannssonar, vil ég taka fram að gestir sem komu á fund nefndarinnar eftir 1. umr. tjáðu sig flestir um tillögu Hæstaréttar munnlega en þeir veittu ekki skriflegar umsagnir.

Varðandi fyrirmælin í lagagreininni þar sem segir að tala dómara skuli frá 1. mars verða sú sem þar stendur eru það lagafyrirmæli um breytta tölu dómara en ekki um það hvenær á að skipa þá. Það er skýrt fordæmi fyrir því í 1. gr. laga nr. 147/2009, þar sem bætt var nýrri grein við lögin þar sem segir m.a., með leyfi frú forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 12. gr. skal tala héraðsdómara frá gildistöku laga þessara vera 43 …“

Sú breyting tók gildi 1. janúar 2010 og á grundvelli hennar voru skipaðir fimm nýir héraðsdómarar 15. maí 2010. Þarna eru fyrst og síðast lagafyrirmæli um fjölda dómara. Síðan hefur það gerst frá árinu 2000 þegar dómarar hafa fengið lausn í Hæstarétti að liðið hafa allt að tveir mánuðir frá því þar til nýr dómari hefur verið skipaður til starfa. Það er því ekkert athugavert við þetta ákvæði, það er ósköp eðlilegt. Svona hefur það verið í fjöldamörg ár.