139. löggjafarþing — 70. fundur,  3. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:22]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir flutti hér prýðilega ræðu í dag. Ég vil gera orð hennar að mínum þó að ég hafi komist að annarri niðurstöðu en hún. Þetta mál er varðað mistökum allt frá því í ágúst 2008. Mörg mistök hafa verið gerð á leiðinni. Neyðarlögin sem voru sett í október tryggðu allar innstæður á Íslandi í Landsbanka Íslands en ekki erlendis og þar með vorum við að mismuna. Það er okkar erfiðasti þröskuldur í hugsanlegum málaferlum. Síðan var þessi leið vörðuð mistökum og sú saga verður eflaust skrifuð einhvern tímann.

Þetta hefur verið mér mjög erfitt mál, rétt eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir lýsti í ræðu í dag. Eftir að hafa vegið og metið málið frá upphafi er niðurstaða mín sú að segja já.