139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

dómur Hæstaréttar um skipulagsmál, orkustefna ríkisstjórnarinnar.

[15:06]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Í fyrsta lagi er mikilvægt að láta það koma fram að þessi niðurstaða Hæstaréttar er ekki á nokkurn hátt áfellisdómur yfir stjórnsýslu umhverfisráðherra, [Kliður í þingsal.] þvert á móti er það staðfest að stjórnsýslan hafi verið eðlileg. (Gripið fram í.) Það liggur fyrir að ágreiningur var um það hvort utanaðkomandi aðilar mættu borga fyrir skipulagsvinnu. Samgönguráðuneytið hafði áður úrskurðað að 6. gr. samnings Landsvirkjunar og Flóahrepps um greiðslu fyrir skipulagið væri ólögmæt og í samræmi við það staðfesti ekki umhverfisráðherra þann hluta skipulagsins. (Gripið fram í.) Áfram stendur það álitamál hvort menn vilja hafa fyrirkomulagið þannig að utanaðkomandi aðilar geti keypt sér niðurstöður í skipulagsmálum sem ég held að þingmenn ættu að (Gripið fram í.) taka alvarlegar en hitt. (Gripið fram í: … sveitarfélögin.) Ég heyri að það er erfitt (Forseti hringir.) að eiga skoðanaskipti við hv. þingmenn um þetta mál, það er ákaflega erfitt að …

(Forseti (ÁRJ): Gefa ræðumanni hljóð.)

Þvert á móti sjá þeir sem hafa fyrir því að lesa dóminn að þarna var uppi vafaatriði þar sem tvö ráðuneyti komust að þeirri niðurstöðu að ekki væri eðlilegt að menn greiddu fyrir skipulagsvinnu, enda er hvergi í lögum talað um að aðrir en sveitarfélög eða Skipulagssjóður geti greitt fyrir aðalskipulag. Hæstiréttur kaus að túlka það svo í þessu tilviki, þar sem um óverulega fjárhæð væri að ræða og ekki væri beinlínis bannað í lögum að greiðslur bærust, skyldi skipulagið standa.

Varðandi virkjun í neðri hluta Þjórsár liggur fyrir sú yfirlýsta stefna og samkvæmt henni er unnið, bæði af hálfu stjórnvalda og Landsvirkjunar, að engar frekari ákvarðanir verði teknar þar um virkjanir eða nýtingu fyrr en að aflokinni vinnu við rammaáætlun og það nýja lagaumhverfi og þá stefnumótun sem þarf að innleiða hér þannig að hægt verði að taka ákvarðanir til framtíðar í þessum efnum út frá vönduðu mati á virkjunarkostum þar sem nýtingarsjónarmið, arðsemi og náttúruverndarsjónarmið fá að vegast á.