139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

dómur Hæstaréttar um skipulagsmál, orkustefna ríkisstjórnarinnar.

[15:10]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Við höfum lengi búið við það andrúmsloft og það fyrirkomulag að öllu sem standi í vegi stóriðjustefnunnar eigi að ryðja burtu, hvort sem það eru nútímaleg viðhorf í umhverfismálum eða það að náttúran megi stundum njóta vafans. Það er út af fyrir sig eðlilegt að þeir sem sjá ekkert annað ljós í atvinnuuppbyggingu en hina gömlu stóriðjustefnu tali með þeim hætti eins og við fáum iðulega að heyra. (REÁ: Hvað er „eitthvað annað“?)

Ætli Landsvirkjun hafi ekki nóg með að vinna úr þeim verkefnum sem hún er með framar í röðinni eins og að tryggja fulla fjármögnun á Búðarhálsvirkjun. Í framhaldinu setur Landsvirkjun mikla fjármuni í rannsókn á háhitasvæðunum í Þingeyjarsýslum þannig að það er nokkuð ljóst hvert Landsvirkjun horfir með næstu verkefni hjá sér. Að sjálfsögðu skiptir máli að þau gangi þá eðlilega fyrir sig og að t.d. sé hægt að fjármagna þær framkvæmdir sem menn ákváðu á hverjum tíma að ráðast í. Ætli það sé ekki nærtækara áhyggjuefni fyrir hv. þingmenn hvernig úr þeim málum verði leyst og þarf annað til en þá þrætu sem hér er uppi.