139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

lög um gerð aðalskipulags.

[15:11]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að ræða við hæstv. fjármálaráðherra, formann Vinstri grænna sem er hið kröftuga höfuð hinnar tvíhöfða ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar. Þó að við séum að ræða skipulagsmál ætla ég að rifja upp að fyrir lok árs 2008 áttu öll sveitarfélög í landinu að hafa lokið aðalskipulagi. Flóahreppur lauk við það mál í desember. Ráðherrann sem ber ábyrgð á þessum málaflokki hefur hins vegar dregið það mánuðum saman, meira en ár, og gerðist síðan svo djarfur að fara gegn Skipulagsstofnun sem gaf það álit að samþykkja bæri aðalskipulagið og hafnaði því, og áfrýjaði því m.a.s. til Hæstaréttar, ráðherra sem ber ábyrgð á þeim skipulagsmálum að sveitarfélögin hafi sett sér aðalskipulag fyrir 2008. Ég velti því fyrir mér hvort það gerist vegna þess að Flóahreppur sé lítill sveitahreppur en ekki stöndugur höfuðborgarhreppur.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra sem formann Vinstri grænna hvort það sé þannig að þegar umhverfisráðherrann sagðist í fréttum ætla áfram að sinna vinnu sinni væri það eins og með landsliðsmarkmanninn sem sagt var í auglýsingunni að hefði það verkefni að vera fyrir, hvort það sé áfram verkefni umhverfisráðherra að vera fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu. Svo við sleppum gríninu, því að þetta er háalvarlegt mál, langar mig líka til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, formann Vinstri grænna, hvort það sé meining hans og ríkisstjórnarinnar að bera ábyrgð á ráðherra sem brýtur landslög. Ráðherrann svaraði áðan fyrirspurn hv. þm. Bjarna Ben. þannig að það væri ekkert athugavert við stjórnsýslu umhverfisráðherra (Forseti hringir.) þó að Hæstiréttur hefði sagt að hún væri lögbrot. Ég verð bara að segja að ég skil þetta ekki.