139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

skuldamál fyrirtækja.

[15:24]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Við höfum einmitt í hyggju aðgerðir til þess að auðvelda bönkunum að setja félög í kauphöll og finna þar með leiðir til að koma þeim í verð. Við vinnum á öllum vígstöðvum í því að gera bönkunum það erfitt að hanga á fyrirtækjum, þvinga þá til að selja þau sem allra fyrst og jafnframt að hvetja þá til þess að vinna úr erfiðum skuldamálum fyrirtækja. Við höfum átt mjög gott samstarf við Samkeppniseftirlitið og Fjármálaeftirlitið að þessu leyti og ég heiti því að við munum halda því áfram.

Það er mjög mikilvægt að fyrirtæki fái sem fyrst fast land undir fætur en það er líka mjög mikilvægt að fyrirtæki þurfi ekki að þola óréttmætar samkeppnisaðstæður til lengri tíma. Það er óhjákvæmileg afleiðing af hruninu að fyrirtæki lenda um ákveðinn tíma í höndum banka þegar þau verða ógjaldfær. Það er mjög mikilvægt að sá tími sé sem stystur og að bönkunum séu settar mjög miklar skorður í því hvernig þeir geti farið með fyrirtæki sem þannig er ástatt um. Það erum við að gera og róum að því öllum árum.