139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

þyrlur Landhelgisgæslunnar.

[15:25]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. innanríkisráðherra snýst um þyrlur og þyrlurekstur Landhelgisgæslunnar. Eins og væntanlega öllum er kunnugt um er Landhelgisgæslan nú með tvær vélar, eina sem við eigum sjálf, TF Líf, og aðra sem er á leigu frá Noregi, þ.e. TF Gná. Nú háttar svo til að TF Líf fer í reglubundna 500 klukkustunda skoðun 1. apríl nk. og sú skoðun getur tekið fjórar til átta vikur. Þá höfum við bara eina vél á meðan, TF Gná.

Í september síðar á þessu ári fer Gná í jafnmikla skoðun sem getur gert það að verkum að hún verður frá í fjórar til átta vikur. Miðað við þetta er allt útlit fyrir að við verðum með aðeins eina þyrlu upp undir fjóra mánuði á þessu ári, og það gengur auðvitað ekki upp.

Ástæðan fyrir því að ég spyr um þetta er m.a. sú, því að þetta er mikið öryggisatriði, að þegar aðeins ein þyrla er í rekstri fer hún aðeins í tíu mínútur út frá ströndinni eða svo sem 20 sjómílur. Það er öryggismál. Það eru öryggisreglur sem eru notaðar hér og eru samræmdar þeim sem eru í Evrópu. Ef aðeins ein þyrla verður eftir verður einungis hægt að fljúga 20 sjómílur frá ströndum landsins.

Því er spurning mín til hæstv. innanríkisráðherra: Hvernig verður brugðist við því máli sem ég hef gert hér að umtalsefni, þ.e. verður leitað eftir þriðju þyrlunni? Hefur það verið gert og hvenær kemur hún, ef svo er? Vegna þess að ekki er hægt að búa við það að vera með eina þyrlu miðað við þær takmarkanir sem ég hef gert að umtalsefni varðandi öryggisatriðin. Það er ekki fullkomið öryggi.