139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma, ráðherraábyrgð.

[15:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Nú er tilefni til að hæstv. forseti grípi inn í þegar framkvæmdarvaldið eða fulltrúi þess, hæstv. fjármálaráðherra, leyfir sér að tala með þeim hætti sem hann hefur gert í dag. Ég geri mér grein fyrir því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð er arftaki byltingararms jafnaðarmanna þar sem menn töldu sig ekki alltaf þurfa að fylgja lýðræðislegum reglum eða lögum til að ná settu markmiði.

Frú forseti. Er það ekki orðið áhyggjuefni fyrir þingið þegar framkvæmdarvaldið er undir stjórn slíkra afla, afla sem láta sig lög landsins engu varða og telja jafnvel, eins og kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra, að það sé hlutverk ráðherra að fara á svig við lögin ef það hentar til að ná fram markmiðinu hverju sinni, og bætir síðan við ásökunum um mútugreiðslur?

Frú forseti. Nú held ég að forseti þingsins þurfi að grípa inn í og setja verulega ofan í við framkvæmdarvaldið.