139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma, ráðherraábyrgð.

[15:42]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að mér finnst algerlega fráleitt að hlusta á fulltrúa framkvæmdarvaldsins, hæstv. fjármálaráðherra, halda því fram að hæstaréttardómur sé ekki á nokkurn hátt áfellisdómur yfir stjórnsýslu hæstv. umhverfisráðherra. Við getum rætt það og munum gera það þegar við fáum tilefni til vonandi á morgun.

Það er líka fráleitt að hæstv. fjármálaráðherra skuli bera fram þá spurningu hvort við viljum virkilega hafa það þannig að hægt sé að kaupa sér skipulag. Þetta eru ein ósmekklegustu orð sem hér hafa fallið og er þó af nógu að taka. Þarna vænir hæstv. fjármálaráðherra sveitarfélagið Flóahrepp um að hafa stundað einhvers konar mútustarfsemi væntanlega. Mér þykir í hæsta máta óviðeigandi að það teljist mútugreiðslur til handa sveitarstjórnarfólki að Landsvirkjun greiði fyrir mótvægisaðgerðir sem af þessu (Forseti hringir.) skipulagi hljótast, eins og t.d. vegi sem sérstaklega eru lagðir fyrir virkjanir. (Forseti hringir.) Ef það eru orðnar mútugreiðslur finnst mér það vera mjög alvarleg ásökun. Ég krefst þess að hæstv. fjármálaráðherra biðji þau sveitarfélög sem í hlut eiga afsökunar á slíkum ummælum.