139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

afnám verðtryggingar.

[15:44]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Árið 1979 voru lög um efnahagsstjórnun og fleira, hin svokölluðu Ólafslög, samþykkt á Alþingi. Með þeim var komið á víðtækri verðtryggingu á sparifé, lánsfé og launum. Ólafslögin, þótt það vilji oft gleymast, höfðu þrjú meginmarkmið. Það var ekki fyrst og fremst að verðtryggja spari- og lánsfé heldur þau göfugu markmið að auka atvinnuöryggi, lækka verðbólgu og tryggja jafnvægi og framfarir í þjóðarbúskapnum. Það ætluðum við að gera með áætlanagerð, verðtryggingu lánsfjár, sparifjár og launa og rannsóknum og upplýsingum til neytenda til að auka verðvitund þeirra almennt. Síðan þá hafa nokkur skref verið stigin til að draga úr verðtryggingu hér á landi enda má segja að frá því að hún var sett á hafi hún ekki notið sérstakrar velvildar almennings. Verðtrygging launa, sem er kannski eitt stærsta skrefið, var t.d. afnumin vegna þess að sýnt var fram á að hún hefði mjög verðbólguhvetjandi áhrif. Bannað var að verðtryggja til skemmri tíma vegna óæskilegra áhrifa á peninga- og vaxtastefnu og verðtrygging var gefin frjáls í samningum manna á milli. Einnig var rætt um það á þessu tímabili að skilyrða það að verðtryggðir vextir verði að vera fastir, enda má orða það á þann veg að verðbætur séu ekkert annað en breytilegt álag, breytilegir vextir ofan á fasta vexti, og síðan var líka talað um að afnema verðtryggingu af sparifé fyrst og fremst.

Ef við horfum til þessara markmiða, yfir þetta tímabil, var atvinnuástandið þokkalega stöðugt en varð lægst 1979. En í dag erum við að upplifa atvinnuleysi sem við höfum aldrei séð áður. Sveiflur í landsframleiðslu og þjóðartekjum hafa verið mjög miklar á þessu tímabili og verðbólga er hærri hér en í öllum helstu nágrannalöndum okkar. Sá árangur sem þó hefur náðst er að meginþorri lána einstaklinga er verðtryggður sem og stór hluti eigna lífeyrissjóða og skuldbindingar þeirra. Fyrir þeirri staðreynd fundu öll íslensk heimili svo sannarlega í hruninu þegar gengi íslensku krónunnar hrundi og verðbólga rauk upp í um 15% árið 2009. Og það var ekki í fyrsta sinn frá því að verðtrygging var tekin upp.

Grundvallarafstaða mín til verðtryggingar er sú að hún sé hækja, hún sé plástur í baráttunni við verðbólguna. Hún gerir það að verkum að stór og mjög mikilvægur hluti samfélagsins, þeir sem lána, þarf ekki að taka þátt í baráttunni við verðbólguna. Sá hluti er stikkfrí. Mikil verðbólga er ógnvaldur, ég held að það sé nokkuð sem við erum öll sammála um. Við þurfum að sjá til þess að innan lands sé verðstöðugleiki og lág verðbólga. Þess vegna er mikilvægt að allir taki virkan þátt í baráttunni gegn verðbólgunni. Enginn má þar vera stikkfrí eða jafnvel hagnast tímabundið, eins og virtist hafa verið tilfellið með hina föllnu banka fyrir hrun.

Það hafa líka verið uppi vangaveltur um það hvort núverandi fyrirkomulag verðtryggðra húsnæðislána, jafngreiðsluformið, hvetji eindregið til of mikillar lántöku og dragi mjög úr eignamyndun húsnæðis. Aðaltæki Seðlabankans er stýrivextir og þeir bíta einfaldlega ekki á þessi verðtryggðu lán. Þegar við horfum á stærstu einstöku fjárfestingu hvers einstaklings, heimilið sjálft, finna menn hreinlega ekki fyrir þessu aðalstýritæki, aðalbaráttutæki, Seðlabankans við verðbólguna.

Ein ástæðan fyrir því að við þurfum að skoða virkilega alvarlega hvernig við getum afnumið verðtrygginguna er sú að það verður mjög erfitt að komast út úr gjaldeyrishöftunum með meginþorra húsnæðislána verðtryggðan og peningastefnan verði bitlausari um ókomna framtíð vegna verðtryggingarinnar. Því verðum við að taka höndum saman og búa til kerfi sem sameinar hagsmuni lántaka og lánveitenda, kerfi þar sem allir berjast sameiginlega við að halda verðbólgu niðri, kerfi sem tekur tillit til þess hvernig við tökum sem einstaklingar, sem manneskjur, fjárhagslegar ákvarðanir og kerfi sem hvetur til samvinnu og sjálfsábyrgðar hvers (Forseti hringir.) einstaklings. Tækifærið er núna, við höfum lága verðbólgu, lága vexti, það er lítil eftirspurn eftir lánsfé og við höfum (Forseti hringir.) gjaldeyrishöftin. Það er kannski eini kosturinn sem við sjáum við þau.