139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

afnám verðtryggingar.

[16:13]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir áhugaverða og skemmtilega umræðu. Það er alltaf gaman að hitta fólk sem hefur áhuga á að tala um verðtrygginguna. Það hefur einkennt starf okkar í nefndinni að við reynum að fara ekki mikið yfir þrjá tíma, förum stundum upp í þrjá og hálfan, fjóra tíma, vegna þess að það er sjaldgæft að hitta fólk sem hefur jafngaman af að tala um verðtrygginguna og við.

Vinnunni miðar áfram. Við vonumst til að geta skilað af okkur núna um mánaðamótin. Það eru fjölmargar leiðir sem hægt er að skoða. Verkefni nefndarinnar er að skoða hvernig við getum dregið úr vægi verðtryggingar í íslensku samfélagi. Mér finnst ekkert að því að ríkið gefi út verðtryggð bréf. Mér finnst heldur ekkert að því að fjármálafyrirtæki fari með verðtryggð bréf. Sama varðandi lífeyrissjóðina þar sem eru sérfræðingar og fagfjárfestar sem hafa þekkingu á því hvað þeir fást við og skilja hvað verðtrygging gengur út á.

Ég hef hins vegar áhyggjur af því að við séum að bjóða upp á svo flókna fjármálaafurð sem grunnlánsform í íslensku samfélagi. Samkvæmt lögum Íbúðalánasjóðs er eina lánsformið sem sjóðurinn má bjóða upp á, sem er með um 90% markaðshlutdeild í húsnæðislánum, verðtryggð jafngreiðslulán. Það er ekkert annað í boði. Þetta er ríkislánafyrirkomulagið. Svona skór, svona lán. Það er eitt af því sem þarf tvímælalaust að skoða og ég veit að Seðlabankinn hefur kallað eftir.

Ef fólk ætlar að taka verðtryggð lán verður það líka að sýna fram á að það skilji hvað það er að gera. Við getum staðgreitt verðbæturnar þannig að peningamálastefnan mundi skila sér betur og allir mundu taka höndum saman um að berjast gegn verðbólgunni. Við getum bannað verðtrygginguna eins og Ísraelar gerðu á sínum tíma, þeir bökkuðu að vísu (Forseti hringir.) aftur út úr því. Um 60% (Forseti hringir.) af húsnæðislánum þeirra eru verðtryggð, þeir fóru niður í það. Finnar bönnuðu einnig verðtryggingu og hafa ekki tekið hana upp aftur. (Forseti hringir.)