139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

stofnun þjóðhagsstofnunar.

430. mál
[16:24]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er á margan hátt hægt að taka undir með hv. fyrirspyrjanda, það er mikilvægt að draga þann lærdóm af efnahagshruninu að hér verði til sterk hagstjórnareining og tryggja verður að kraftar verði ekki of dreifðir á þessu sviði. Skortur á samhæfingu og of dreifðir kraftar voru eitt megingagnrýnisatriðið á þá hagstjórn sem var og því verðum við að breyta til frambúðar.

Vinna við skoðun stofnunar nýrrar þjóðhagsstofnunar eða öflugrar einingar á sviði efnahagsmála er á byrjunarstigi. Fulltrúar nokkurra ráðuneyta hafa átt samráð um verkefnið og undirbúning þess. Það er einnig ljóst að til að einfalda og hagræða í stjórnkerfinu verða ekki búnar til nýjar stofnanir án þess að horfa til heildarmyndarinnar. Hér þarf að hafa í huga að fyrir eru stofnanir eða hlutar stofnana innan stjórnsýslunnar sem sinna hlutverkum sem gætu fallið að þeim verkefnum sem ný þjóðhagsstofnun mundi hugsanlega sinna og þyrfti að skoða hvernig hægt er að fella þá starfsemi að breyttu formi eða stofnun.

Í þessu sambandi þarf sérstaklega að horfa til Hagstofu Íslands sem tók við ýmsum verkefnum Þjóðhagsstofnunar, svo sem gerð þjóðhagsreikninga og hagspár. Þannig er brýnt að skoða hvernig slík stofnun mundi best falla að stjórnkerfinu í heild og hvernig staða hennar yrði tryggð þannig að hún nyti óskoraðs trausts þeirra sem til hennar leita.

Jafnframt þarf að skoða stofnun þjóðhagsstofnunar með tilliti til tillögu þingmannanefndarinnar um að stofnaður verði samráðsvettvangur fjármálaráðuneytis, Alþingis, stofnana ríkisins, sveitarfélaga og Seðlabankans.

Í skýrslu þingmannanefndarinnar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Þingmannanefndin leggur til að stofnuð verði sjálfstæð ríkisstofnun sem starfi á vegum Alþingis og hafi það hlutverk að meta og gefa út spár fyrir efnahagslífið á sama hátt og Þjóðhagsstofnun gerði til 1. júlí 2002.“

Það er mikilvægt að aðilar í þessu efni, þ.e. framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið, viti hvor af öðrum í þessu máli þannig að ekki verði um skörun að ræða.

Ég tel mikilvægt að skoða þetta mál vandlega og undirbúa vel til þess að þau skref sem tekin verða séu markviss og hagkvæm. Sú vinna verður unnin á næstu vikum og mánuðum.