139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

stofnun þjóðhagsstofnunar.

430. mál
[16:31]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin og hvet til þess að hert verði á þessari vinnu þannig að árangurinn komi í ljós fremur eftir vikur en mánuði miðað við svar hennar. Ég tel að þetta sé ákaflega brýnt verkefni þannig að ég endurtaki það og þótt ekki verði fjölmenn vinnustöð þarna í byrjun yrði þetta eitt af táknunum um hið nýja samfélag sem við ætlum okkur að reisa úr rústunum.

Ég þakka fyrir umræðuna og vil taka undir það með forsætisráðherra og öðrum sem hér hafa talað að ég tel að það sé góð hugmynd og leiðarhnoða í þessu að umrædd stofnun verði undir stjórn Alþingis og í skjóli þess samkvæmt eðli máls.

Ég kem líka á framfæri þeirri hugmynd Þórólfs Matthíassonar hagfræðings, sem ég heyrði hann nefna á fundi um hagmál, að í hinni nýju þjóðhagsstofnun verði til ráðgjafar, settir í stjórn, erlendir sérfræðingar, erlendir hagspekingar, sem bæði geti nýst okkur til samráðs og ráðslags en séu líka ákveðin trygging fyrir því að sú þjóðhagsstofnun sem við erum að endurreisa eða búa til upp á nýtt sé í raun og veru sjálfstæð og gefi ráð á grundvelli bestu þekkingar og fræða sem unnt er.

Ég vil svo bæta því við að varlega á að fara í það að fela þessari stofnun stjórnsýsluleg verkefni. Mér var bent á það í dag að í nýju sveitarstjórnarlagafrumvarpi er lögð áhersla á að árlega sé gerð áreiðanleg þjóðhags- og landshlutaspá sem leggja beri til grundvallar í samstarfi sveitarfélaga og ríkis. Þarna er gengið út frá því að slík spá sé ekki til (Forseti hringir.) á okkar tímum og hvatt til þess að það verði. Spá af þessu tagi gæti einmitt orðið eitt af verkefnum hinnar nýju stofnunar.