139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

fundarstjórn.

[16:38]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Mig lystir enn að fá fréttir af fundi forseta með þingflokksformönnum og einkum um hvaða ákvarðanir forsetinn og þingflokksformenn hafa tekið um hið svokallaða „þetta mál“ sem fundurinn var boðaður um. Þetta er bæði forvitni hreint eins og hjá kettinum en líka eðlileg viðbrögð alþingismanns sem kemst á snoðir um að forustumenn hans og þingsins eru að funda sérstaklega um eitthvert tiltekið mál sem hann skilur ekki alveg af hverju þarf að funda um og vill fá fréttir af.

Ef „þetta mál“ fjallar um þá sókn sem hafin er gegn hæstv. umhverfisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, veit ég ekki betur en að um hana eigi að fara fram sérstök utandagskrárumræða á morgun. Ég skil því ekki alveg hvað „þetta mál“ var að gera á dagskrá fundar forseta með þingflokksformönnum og óska upplýsinga um það.