139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

framkvæmd skólalöggjafarinnar frá 2008.

[16:48]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að vekja máls á því hvernig gangi að innleiða og þróa nýja skólalöggjöf. Ég vil segja í byrjun að að mínu viti hefur tekist ágætlega til með innleiðinguna þó að hægst hafi á ákveðnum hlutum hennar hreinlega út af efnahagsástæðum. Ég ætla að fara aðeins yfir það á eftir en byrja á hinum nýju lögum um leik- og grunnskóla sem að mati okkar í ráðuneytinu hefur gengið vel að vinna eftir.

Allar reglugerðir við lögin fyrir utan eina hafa nú tekið gildi. Og af því að hv. þingmaður fór sérstaklega yfir sérkennslu- og sérfræðiþjónustu er þar m.a. reglugerð um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga og hins vegar reglugerð um nemendur með sérþarfir. Báðar þessar reglugerðir voru unnar í miklu samráði við hagsmunaaðila og við gáfum okkur góðan tíma til að vinna þær, en ég held að þær endurspegli þá þróun og þá umræðu sem hefur verið um þessi mál. Þær eru unnar m.a. í nánu samráði við Barnaverndarstofu og fagaðila fyrir utan auðvitað sveitarfélögin og kennara. Sú vinna hefur gengið vel. Vinna við síðustu reglugerð er á lokastigi, þ.e. ekki hefur enn verið gefin út reglugerð um ábyrgð nemenda í grunnskólum en það stafar af því að ábendingar hafa borist frá fagaðilum um að skýrari lagastoð þurfi til að skilgreina betur þessa ábyrgð nemenda. Þar hefur verið rætt sérstaklega að setja þurfi lagastoð til þess að skólum sé skylt í raun og veru að móta heildstæða stefnu til að fyrirbyggja og bregðast við líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi sem snýr að ábyrgð nemenda og það er í raun ástæðan fyrir því að það hefur tafist.

Ég vil líka nefna að námskrárvinna hefur staðið yfir. Stefnt er að útgáfu námskráa með vorinu, í sumar, eitthvað slíkt. Þar hefur mikið samráð verið haft. Þar er um að ræða sameiginlegan kafla aðalnámskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla og almennan hluta aðalnámskrár leik- og grunnskóla. Vinna er líka hafin við greinanámskrár og námssvið grunnskóla. Þar hefur verið haft virkt samráð líka við Samband íslenska sveitarfélaga og Kennarasambandið, drög sett á netið. Við höfum leitað eftir athugasemdum og málið fengið talsvert mikla umræðu, fólk hefur miklar skoðanir en það er líka mikill áhugi á málefninu. Þetta hefur því gengið prýðilega mundi ég segja.

Hvað varðar iðnnámið sérstaklega vil ég nefna að ein merkustu nýmælin í lögum um framhaldsskóla sem gengu í gildi 2008 voru í raun og veru staða iðnnámsins, hvernig hún var styrkt, og unnið hefur verið að því, sérstaklega undanfarið ár, hvernig við viljum sjá það þróast. Þar var sjónum sérstaklega beint að iðnnáminu, áhersla lögð á fræðslu og mjög góða samvinnu við starfsgreinaráðin og nýskipaða starfsgreinanefnd sem var nýmæli í lögunum. Við höfum veitt þróunarstyrki í samvinnuverkefni um gerð dæmabrauta fyrir ólíkar tegundir iðnnáms. Vinna hefur verið lögð í að skilgreina hæfniþrep. Ein af nýmælunum í lögunum öllum, lagabálknum, er áhersla á hæfni nemenda en ekki aðeins hvað er kennt, þ.e. horft er á skólanám út frá nemandanum. Hópur tengdur ólíkum starfsgreinum hefur unnið að því í vetur að skilgreina iðn- og starfsnám á þrep, það var m.a. kynnt á málþingi um innleiðingu framhaldsskólalaga sem haldið var síðastliðinn föstudag, og starfsgreinaráð vinna um þessar mundir að því að skilgreina hæfnikröfur starfa. Við teljum okkur allvel á veg komin í því að vinna þessa námskrárvinnu, sem er auðvitað undirstaðan fyrir það að skólarnir geti þróað sínar starfsbrautir og námsbrautir.

Ég vil sérstaklega nefna listnám sem skiptir miklu máli líka. Fulltrúar ólíkra listgreina hafa unnið sambærilega vinnu og unnin hefur verið í tengslum við iðnnámið við að skilgreina hæfni á listgreinaþrep og ég vonast til að sú vinna geti verið leiðbeinandi fyrir gerð listnámsbrauta.

Það sem einkennir þetta allt saman er að fulltrúum ólíkra greina, iðngreina, starfsgreina og listgreina, er stefnt saman til að komast að sameiginlegri niðurstöðu.

Hins vegar liggur líka fyrir að ákveðnir þættir hafa breyst. Það lá fyrir að þegar þessi lög gengu í gildi, til að mynda hvað varðar framhaldsskólana, var gert ráð fyrir árlegum kostnaði upp á 1,5 til 1,8 milljarða á ári fyrstu árin og ég get ekki dregið dul á að það hrun sem hér varð og breyttar forsendur í efnahagsmálum hafa að sjálfsögðu hægt á innleiðingarferlinu. Fyrirséð var að lögin mundu kalla á aukin útgjöld, ég get nefnt endurmenntun kennara, þróunar- og tilraunastarf, verklag við nýja námskrá, nýjan námskrárgrunn, námsgögn sem áttu að vera að hluta til ókeypis fyrir nemendur, vinnustaðanámssjóð og fleira. En þrátt fyrir að hægt hafi á ferlinu höfum við unnið að því að forgangsraða fjármagni með því að láta það renna til þróunarstyrkja. Allir framhaldsskólar hafa unnið að þróunarverkefnum sem tengjast innleiðingunni og mikið er um af skólar starfi saman að einstökum verkefnum.

Af því hv. þingmaður nefndi sérstaklega námstíma til stúdentsprófs vil ég nefna að fyrir utan Menntaskóla Borgarfjarðar, sem tók til (Forseti hringir.) starfa haustið 2007, hafa tveir nýir skólar bæst í hópinn sem tilraunaskólar, sem eru Kvennaskólinn (Forseti hringir.) í Reykjavík og Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ sem tóku til starfa eftir nýjum lögum haustið 2009. (Forseti hringir.) Ég fer nánar yfir það á eftir.