139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

framkvæmd skólalöggjafarinnar frá 2008.

[16:54]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu er mikilvægt að við förum eftir þeim lögum og þeirri stefnu sem er mörkuð á hverjum tíma, ekki síst ef við búum svo vel á þinginu að hafa náð samstöðu um hvert við stefnum og ekki síst í stórum málum eins og menntamálum. Við megum hins vegar ekki festa okkur þannig að við endurmetum ekki hlutina. Því vil ég hafa aðeins orð um það að við verðum að vera reiðubúin til að endurmeta á hverju ári, tel ég, þá stefnu sem við erum með í menntamálum sem og öðrum málum. Ef við sjáum að við erum að dragast aftur úr að einhverju leyti, gæðalega eða í einhverjum samanburði, hljótum við að þurfa að setjast niður og meta hvað við getum gert betur. Sem betur fer höfum við verið mjög samstiga í því að fara þá leið að vera óhrædd við að ræða þessa hluti.

Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra til að beita sér nú sem fyrr í að við förum vandlega yfir ábendingar og merki um það sem við sjáum að þarf að fara betur í menntastefnu okkar og skólamálum. Ekki er nóg að hafa stefnu og vinna eftir henni ef við erum svo blind að við þorum ekki að viðurkenna það sem betur má fara eða það sem við gerum vel og getum leiðbeint öðrum með, því að ég hef trú á að við getum kennt öðrum ýmislegt þó svo að við getum líka lært mikið.

Það er mjög mikilvægt að við höfum þá stefnu að ýta undir námsgreinar sem börn og unglingar vilja læra. Ég hef velt því mikið fyrir mér í ljósi þess að iðnnám — af því ég vil gera það og listnám um leið aðeins að umtalsefni hérna — hefur kannski verið eins og einhvers konar aukaafurð í öllu menntakerfinu að kynna ætti fyrr fyrir börnum og unglingum þá kosti sem þau eiga í þessum námsgreinum, að kynna ætti þessa kosti miklu fyrr því að þegar börnin koma úr grunnskólunum dettur þeim oftast fyrst í hug einhvers konar bóknám.