139. löggjafarþing — 71. fundur,  14. feb. 2011.

framkvæmd skólalöggjafarinnar frá 2008.

[16:59]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við boðuðum nýja menntastefnu með heildarlögum árið 2008. Henni fylgdu margháttaðar breytingar og ný verkefni bæði fyrir sveitarfélögin og svo verkefni á vegum ríkisins á framhaldsskólastiginu og síðan í framhaldsmenntun utan hins hefðbundna skóla. Því er þessi umræða um framkvæmd laganna þörf og þær upplýsingar sem hæstv. ráðherra hefur gefið er af hinu góða.

Hvað varðar heildarlöggjöfina og verkefni ríkisins hefur hæstv. ráðherra lagt fram breytingar á gildistöku einstakra þátta löggjafarinnar til að mæta núverandi fjárhagsvanda ríkisins. Þetta hefur einkum bitnað á iðnnámi sem og á sveigjanleika skólastiga. Sá sparnaður, frú forseti, er sparnaður dagsins í dag. Það eru kannski ekki allir á eitt sáttir um að þær breytingar og frestun á gildistöku séu í raun og veru sparnaður ef horft er til lengri tíma vegna þess að m.a. sveigjanleiki í skólaskilum og styttra nám til stúdentsprófs mun bæta fjárhagsstöðu jafnt ríkisins sem sveitarfélaganna þegar til langtíma er litið.

Sveitarfélögin eru í dag að leita leiða til að skoða með hvaða hætti þau geta mætt þeim vanda sem við er að glíma þar. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún og þeir fagaðilar sem hafa komið að reglugerðar- og námskrárvinnunni í tengslum við lögin hafi hugsað það út frá því að ákvörðunarvald sveitarfélaga verði ívið meira og bundnara stigum, að það sé réttur nemandans að hafa fengið á fyrsta stigi svo og svo margar kennslustundir í heild, á miðstigi svo og svo margar kennslustundir í heild og á unglingastiginu líka, en það sé sveitarfélaganna að koma með nánari útfærslu. Það eigi ekki að vera bundið í lög hve margar kennslustundir eigi að kenna í hverju fagi í hverri viku heldur sé ákvörðunarvaldið sveitarfélaganna en réttur nemandans á hverju stigi verði tryggður.