139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Þann 9. febrúar 2011, bara fyrir nokkrum dögum, var þáttur í útvarpinu sem heitir Í býtið á Bylgjunni. Þar var varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Ólöf Nordal, í útvarpsviðtali. Mig langaði að þakka Ólöfu Nordal fyrir hreinskilnisleg svör í þessu viðtali en þar sagði hún m.a., með leyfi forseta:

„Ég held að Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, hafi stigið þarna mjög mikilvæg skref. Hann stígur fram og stendur við það sem hann hefur sagt í þessu máli, allt frá upphafi Icesave-málsins eftir að það birtist okkur í þinginu …“ — og svo hér síðar: „og formaður flokksins stígur það skref sem er mjög óvenjuleg, tel ég, fyrir foringja í stjórnarandstöðu að standa bara nákvæmlega með því sem hann telur rétt fyrir þjóðina.“

Nú liggur sem sagt ljóst fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hefur í þessu máli ákveðið að gera það sem best er fyrir þjóðina en að gefnu tilefni, af því að hér er talað um foringja í stjórnarandstöðu og stjórnarandstöðuflokka — Hreyfingin er ekki með leiðtoga og engan formann sem tekur ákvarðanir fyrir okkur en ég vil taka fram að Hreyfingin vinnur alltaf í þágu þjóðarinnar.