139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs til að ræða um þær breytingar sem eru að eiga sér stað víða á verksviði grunnskólans og á forræði sveitarfélaganna. Við sjáum að hagræðingin hjá sveitarfélögunum er byrjuð að bitna á grunnskólastarfi og það er vont að sjá að lögbundin þjónusta er að skerðast í þeirri glímu sem sveitarfélögin eiga núna í í fjárhagsáætlunum sínum. Ég held að það skipti miklu máli að við hér á þinginu lýsum því yfir að við eigum að verja lögbundin réttindi barnanna okkar með kjafti og klóm. Sveitarfélögin verða eins og aðrir að forgangsraða og þá verða menn að fara að lögum þó að reyndar hafi aðrir tónar verið sendir út á síðustu dögum frá þinginu hvað það varðar.

Ég vil ræða við hv. varaformann menntamálanefndar um það hvort ráðuneyti menntamála gæti til að mynda ekki komið upp hugsanlega ákveðnum velferðarhópi barna sem hefði það að markmiði að skoða og hafa eftirlit með því að sveitarfélögin gangi ekki núna í þessum hremmingum á rétt barnanna. Við sjáum að Reykjavíkurborg á í miklum erfiðleikum með þetta. Þar er örugglega hægt að forgangsraða eins og víðar. Hér hefur ríkisstjórnin m.a. sett fram ákveðna forgangsröðun, t.d. varðandi stjórnlagaþingið og varðandi kynjaða fjárlagagerð, og það er bara hennar stjórnarstefna. Ég held að það verði að koma skýrt fram að núna þegar menn standa frammi fyrir hagræðingu í sveitarfélögunum verði það ekki gert á kostnað barnanna. Um leið verður menntamálaráðuneytið að mínu mati að beita sér fyrir því að settur verði inn í grunnskólalöggjöfina aukinn sveigjanleiki fyrir sveitarfélögin til hagræðingar. Með þessu er ég ekki að segja já við því að stytta skólaárið um 10 daga, úr 180 dögum í 170 daga. Ég er á móti því. Ég tel að börnin eigi að fá þá menntun sem lögin segja til um.

Um leið verður Kennarasamband Íslands líka að koma í þá vegferð að auka sveigjanleika í rekstri skólanna. Kennarasambandið er hér ekki undanskilið til (Forseti hringir.) þess að við getum náð því markmiði að standa vörð um lögbundin réttindi barnanna okkar til menntunar.