139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:12]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum enn hagræðingu sveitarfélaganna og boðaðan niðurskurð, ekki síst í grunnskólum landsins. Þau tíðindi berast nú að fyrirhugað sé að skera niður í grunnskólunum sem bitnar þá fyrst og fremst á list- og verknámi. Auk þess á að skera niður gæslu í skólum sem einmitt hefur verið notuð til að koma í veg fyrir einelti.

Það þarf að skoða að mínu mati mjög vel afleiðingar af þessum niðurskurði og það er m.a. hlutverk hv. menntamálanefndar að hafa eftirlit með framkvæmd menntastefnunnar, en nefndin hefur ekki fundað sérstaklega um þetta mál enda er niðurskurðurinn ekki kominn til framkvæmda.

Frú forseti. Við megum ekki gleyma því að tónlist skapar verðmæti og hún er hornsteinn blómlegs menningarstarfs. Tónlistin er jafnframt hluti af skapandi greinum sem stjórnvöld hafa nú skilgreint sem grundvallaratvinnuveg. Niðurskurður á tónlistarmenntun mun þrýsta enn stærri hluta tónlistarnámsins inn í einkageirann og reynslan af slíkri þróun er að menntunin verður dýrari. Dýrara tónlistarnám dregur úr möguleikum barna tekjulágra foreldra til að stunda slíkt nám einmitt á tímum þegar sérstaklega þarf að huga að þessum börnum.

Virðulegi forseti. Koma verður í veg fyrir að niðurskurður á framlögum til tónlistarskóla bitni sérstaklega á þessum hópi barna. Það þarf sérstaklega að skoða ekki síst út frá því sem ég nefndi fyrr, að reynsla Finna af fjármálakreppunni var einmitt sú að við þurfum að forgangsraða í þágu barna ef við ætlum ekki að hafa hér stóran hóp fólks (Forseti hringir.) sem stendur fyrir utan samfélagið vegna niðurskurðar í kjölfar bankakreppunnar.