139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

störf þingsins.

[14:22]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni, og enn sem komið er nefndarmanni í allsherjarnefnd, þessa fyrirspurn. Ég get ekki sagt að ég hafi stórkostlegar áhyggjur af þeirri stemningu sem er að myndast í þjóðfélaginu eins og hv. þingmaður nefnir það varðandi niðurstöðu Hæstaréttar. Ég er þeirrar skoðunar að okkur beri að virða dóma og ákvarðanir Hæstaréttar um stjórnlagaþingið en það felur ekki í sér að ekki geti farið fram málefnaleg umræða um niðurstöðuna í þinginu og í samfélaginu.

Ég vil líka minna á það sem blasir við að Hæstiréttur komst ekki að þeirri niðurstöðu að landskjörstjórn bæri að segja af sér eða að umhverfisráðherra bæri að segja af sér eða eitthvað slíkt. Það fólst ekkert slíkt í þeirri niðurstöðu. Það geta verið málefnalegar ástæður sem liggja til grundvallar framgöngu stjórnmálamanna og heiðarleg mistök geta átt sér stað. Það felur ekki sjálfkrafa í sér að stjórnarandstaðan eigi þá að ganga fram og krefjast þess að einhver axli ábyrgð með því að segja af sér. Ég hef áhyggjur af þeirri þróun mála í íslenskri stjórnmálahefð. Hlutirnir fara öðruvísi en ætlað var og þá er það sjálfkrafa orðin krafa stjórnarandstöðunnar oft og tíðum (Gripið fram í.) að einhverjir segi af sér. (HöskÞ: Hverjir kröfðust þess að landskjörstjórn segði af sér?) Væri það til of mikils mælst, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, að ég fengi bara að ljúka máli mínu hérna? (Gripið fram í.) Ég hef tvær mínútur (Gripið fram í.) til að ljúka máli mínu og hv. þingmaður getur

(Forseti (ÁRJ): Gefið ræðumanni hljóð.)

ekki unnt öðrum þingmönnum þess að nýta sér þann tíma sem þeir hafa til að svara þó það séu fyrirspurnir frá samflokksmönnum þingmannsins. Getur hv. þm. Höskuldur Þórhallsson ekki bara beðið um orðið og komið í ræðustólinn og haldið þar málefnalega ræðu? Þarf hann í sífellu að grípa fram í? (Gripið fram í.) Gerðu svo vel. (Gripið fram í: … forseti Alþingis líka.)