139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

störf í þágu þjóðar -- málefni grunnskólans -- skipulagsmál sveitarfélaga o.fl.

[14:34]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Þess var ekki að vænta að hv. þingmenn gætu setið á sér í ljósi þess að umræður utan dagskrár eru eftir nokkrar mínútur um dóm Hæstaréttar (Gripið fram í.) vegna skipulagsmála í Flóahreppi. Jú, það er málfrelsi en það er mikið talað um bætt vinnubrögð og samskipti hér á hinu háa Alþingi þessa dagana.

Hér kemur hver þingmaðurinn á fætur öðrum, t.d. hv. þingmenn Framsóknarflokksins, endurfæddir eins og englar á olíubuxum. Þeir hafa enga fortíð, hvorki í umhverfisráðuneytinu né annars staðar. Þeir hafa enga fortíð í skipulagsmálum, í virkjanamálum eða í öðru. Frú forseti, það gengur ekki að menn komi hér upp og tali eins og sagan sé ekki þeirra, eins og sporin séu ekki þeirra í þessum málum, hvort sem það er lagasetningin eða annað. Það er hins vegar tiltölulega auðvelt að slá þessar keilur, eins og stundum hefur verið sagt í þessum sal, það er tiltölulega auðvelt að tala bara um Flóahrepp og hæstv. umhverfisráðherra. Eigum við kannski að tala um hvíta fílinn í salnum sem eru 77 íslensk sveitarfélög? Stærstur hluti þeirra er svo lítill að hann hefur enga burði til þess að sinna skipulagsmálum sem eru undirstaða umhverfisverndar á Íslandi. Það er verkefni okkar að sjá til þess að sveitarfélög geti unnið að skipulagsmálum með almannahagsmuni að leiðarljósi en ekki með hinni sunnlensku hreppapólitík sem sumir virðast bara kunna hér. (Gripið fram í.)