139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

orð þingmanns í umræðu um störf þingsins.

[14:44]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður, formaður Framsóknarflokksins, er undrandi á því að stjórnandinn hér í salnum berji mikið í bjölluna þegar þingmenn Framsóknarflokksins tala. Það er alkunna að hljómsveitarstjórar berja einmitt í bjölluna þegar spilað er falskt, það þarf ekki að koma neinum á óvart. (Gripið fram í: Bjöllu…) Ég ætla hins vegar að taka undir með hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur þegar gert, varðandi umræðu um þau mál sem hún nefndi, ég tel það vera hið besta mál. Ég vil líka nefna að síðan í haust hefur verið til umfjöllunar, á vettvangi formanna þingflokka, frumvarp til laga um breytingar á þingsköpum sem m.a. eiga að mæta ábendingum sem komu fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Því miður er það frumvarp enn fast í nokkrum þingflokkum. Þingflokkur minn hefur ákveðið að standa að frumvarpinu sem forseti hefur óskað eftir að flytja ásamt formönnum þingflokka. Ég hvet aðra þingflokka sem eiga þau mál eftir óafgreidd að gera það hið fyrsta og sýna þar með í verki (Forseti hringir.) að þeir vilja standa að frumvarpi til breytinga á þingskapalögunum sem kemur til móts við athugasemdir og ábendingar sem þingmannanefndin (Forseti hringir.) og rannsóknarnefndin gerðu.