139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

dómur Hæstaréttar um skipulag Flóahrepps.

[14:58]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er umræða á villigötum. Ég spyr mig: Á nú að tengja hrunið við aðalskipulag sveitahreppa? Enginn efast um skoðanir umhverfisráðherra á virkjunum og áhuga á að vernda umhverfið. Trúlega hefur vaskleg framganga hennar á þeim vettvangi valdið því að þingflokkur og formaður Vinstri grænna kusu hana sem ráðherra umhverfismála. En í máli Flóahrepps gegn umhverfisráðherra var ekki verið að fjalla um þau störf eða skoðanir ráðherrans. Dómur héraðsdóms og Hæstaréttar snerist um að ráðherra hefði ekki farið að lögum, hefði ekkert með umhverfismál að gera. Ráðherra braut á stjórnskipulegum rétti sveitarfélaga varðandi skipulagsmál, sama málaflokk og ráðherrann ber ábyrgð á. Samt kom í ljós að lítill sveitahreppur og lýðræðislega kosnir fulltrúar hans og embættismenn túlkuðu lögin rétt en ráðherrann rangt. Það hlýtur að hafa einhverjar afleiðingar þegar ráðherrar misbeita valdi sínu. Höfum við ekkert lært frá hruni? Lærðum við ekkert af rannsóknarskýrslu Alþingis? Ætluðum við ekki að fara eftir þingsályktun 63:0 um að formgera stjórnsýsluna, um að bæta verklag og auka ábyrgð? Það er svo efni í nýja utandagskrárumræðu með hvaða hætti þingmenn stjórnarliðs og ráðherrar, síðast hæstv. fjármálaráðherra hér í gær, brigslar lýðræðislega kosnum fulltrúum sveitarfélaga um mútuþægni og annarleg sjónarmið. Hæstiréttur hreinsaði þá af öllum slíkum ávirðingum.

Aðalatriði í þessari umræðu er hins vegar að umhverfisráðherra braut lög. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að fá skýr svör frá hæstv. umhverfisráðherra. Hyggst ráðherrann segja af sér? Mun ráðherrann óska þess að sveitarfélögin taki á móti formlegri afsökunarbeiðni vegna málsins og ummæla ráðherrans í garð lýðræðislega kosinna fulltrúa þeirra? Hvað mun nú gerast? Mun ráðherrann staðfesta skipulag Flóahrepps? Mun ráðherrann staðfesta skipulag vegna Hvamms- og Holtavirkjana í Skeiða- og Gnúpverjahreppi? Það skipulag hefur beðið staðfestingar ráðherra í þrjú ár.

Auk þess mætti spyrja: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar? Hvað verður um atvinnumálin? (Forseti hringir.) Heldur stefnuleysið áfram? Mun atvinnuleysið halda áfram að vaxa og fólksflótti halda áfram úr landi?