139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

dómur Hæstaréttar um skipulag Flóahrepps.

[15:01]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Miðað við orðalag 34. gr. gömlu skipulags- og byggingarlaganna um greiðslu kostnaðar vegna skipulagsvinnu, þar sem ekki er gert ráð fyrir annarri fjármögnun aðalskipulags en úr sveitarsjóði og úr skipulagssjóði, og miðað við 23. gr. sömu laga þar sem landeiganda eða framkvæmdaraðila er heimilað, með leyfi forseta, „að gera tillögu til sveitarstjórnar að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað“, miðað við álit umboðsmanns Alþingis frá því í mars 2009 og miðað við úrskurð samgönguráðherra frá ágúst sama árs um ólögmæti tiltekinnar greinar í samningi Landsvirkjunar og Flóahrepps, miðað við fordæmið frá 2002 þegar umhverfisráðherrann Siv Friðleifsdóttir neitaði að fallast á flugvallarhluta aðalskipulags Reykjavíkurborgar og miðað við sögu þessa máls þar sem forustumenn sveitarfélagsins féllu frá fyrri skipulagsákvörðun gegn meirihlutavilja í sveitinni eftir tilboð frá Friðrik Sophussyni, þáverandi forstjóra Landsvirkjunar, um greiðslu fyrir skipulagsvinnuna og greiðslu fyrir bundið slitlag á tvo vegi, fyrir vatnsveituframkvæmdir og fyrir GSM-samband, sem allt virðist langt umfram nokkur eðlileg mæri í slíkum samskiptum, miðað við allt þetta er eðlilegt að hæstv. umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, skuli hafa synjað staðfestingar á Urriðafosshluta Flóahreppsskipulagsins og látið reyna á þá ákvörðun fyrir dómi.

Ásakanir um lögbrot og valdníðslu eru fáránlegar í þessu máli. Hér voru engin lög brotin heldur hlaut ráðherrann við ákvörðun sína að túlka bókstaf laganna eins og honum þótti réttast og vitlegast á sama hátt og ráðherrar og aðrir starfsmenn stjórnsýslunnar gera á hverjum degi. Þetta sjá allir sanngjarnir menn en auðvitað ekki þeir sem eru í pólitískum hasar og heimta nú afsögn ráðherrans til að koma höggi á ríkisstjórnina og troða niður skynsemismálstað í skipulagsmálum og náttúruvernd.