139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

dómur Hæstaréttar um skipulag Flóahrepps.

[15:20]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (ber af sér sakir):

Frú forseti. Það er mjög erfitt að búa við það að þingmenn geti gert manni upp orð og skoðanir og borið á mann sakir sem engar innstæður eru fyrir ef það er lesið sem maður sagði. Ég viðhafði engin þau orð hér í gær, hvorki um Flóahrepp, Landsvirkjun né aðra, sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson leggur mér í munn. Engin. Ég notaði aldrei það orð sem hann lagði mér í munn, orðið mútur, aldrei. Ekkert í mínu máli gefur tilefni til slíkra ályktana. Ég fjallaði almennt um fyrirkomulag þessara mála og það grundvallarmál, prinsipp, sem við þurfum að taka afstöðu til, hvort utanaðkomandi aðilar eigi að geta greitt fyrir aðalskipulagsvinnu og hvaða mörk eigi að setja í þeim efnum. Það er prinsippmál sem maður vonaði að hv. þingmenn gætu hert sig upp í að ræða sem slíkt en gerðu mönnum ekki upp skoðanir í þeim efnum heldur tækjust á um það málefnalega hverjar leikreglurnar ættu að vera. (Forseti hringir.) Það var það sem ég ræddi í almennu samhengi og vísaði í því máli ekki til Flóahrepps eða annarra aðila heldur ræddi málið almennt, eins og augljóst er ef ræða mín frá í gær er lesin.