139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

fundarstjórn.

[15:25]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það sem stendur upp úr eftir þessa umræðu, og hæstv. forseti þingsins ætti að taka til sín, er að hæstv. ráðherra er þeirrar skoðunar að allt annað en lög og réttur í landinu eigi að njóta vafans. Ég skora á hæstv. forseta þingsins að leiðrétta þann misskilning hjá hæstv. ráðherra.

Ræða hæstv. ráðherra olli miklum vonbrigðum og umræðan öll. Engin iðrun, engin afsökun, ekki neitt. Í stað þess að biðjast afsökunar á lögbrotum sínum lýsir ráðherrann því yfir að hún hafi aldrei fundið fyrir meiri stuðningi. Hæstv. fjármálaráðherra segir að embættisfærslurnar og lögbrotin séu gæðastimpill yfir stjórnsýslu ráðuneytisins eða svo gott sem. (MÁ: … forseta.) [Hlátur í þingsal.] Það mætti halda að þjóðin, ef maður hlustar á hæstvirta ráðherra í ríkisstjórn, eigi að telja sig ljónheppna með slíkan ráðherra, (Forseti hringir.) margdæmdan fyrir að brjóta lög. Viðbrögð ráðherrans, frú forseti, sem situr með þungan dóm á bakinu (Forseti hringir.) eru auðvitað ekkert annað en hneyksli. (Gripið fram í.)