139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

fundarstjórn.

[15:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að ræða um fundarstjórn forseta. Við höfum þrískiptingu valdsins til að vernda borgarana fyrir ofurvaldi ríkisins. Hér féll hæstaréttardómur í máli umhverfisráðherra og forseti Alþingis sem fulltrúi löggjafarvaldsins á að blanda sér í málið vegna þess að löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið og dómsvaldið takast á. Allt er þetta gert til að vernda borgarana, almenning í landinu, þessi þrískipting valdsins, og það skiptir verulegu máli að menn hlíti því sem dómsvaldið segir um framkvæmdarvaldið.