139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

afbrigði um dagskrármál.

[15:33]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eina ástæðan fyrir því að við greiðum hér atkvæði um afbrigði er sú að meiri hlutinn ákvað í gær að taka málið út með þjósti, mál sem hefur verið unnið í frekar miklum rólegheitum. Allt í einu lá mönnum lífið á að klára málið. Af hverju skyldi það hafa verið? (Gripið fram í: Jæja …) Af hverju skyldi það hafa verið, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, sem kallar hér frammí? Jú, vegna þess að upp safnast undirskriftir gegn Icesave og ríkisstjórninni liggur á að koma í veg fyrir að fleiri undirskriftir safnist vegna þess að það er pólitískt óþægilegt. Af því það er pólitískt óþægilegt leyfir hæstv. forseti að málið sé keyrt áfram á þessum hraða.

Hæstv. forseti. Er ekki mál til komið að í stað þess að setja upp svip í hvert einasta skipti sem menn biðja um að taka til máls um fundarstjórn forseta að kalla þingflokksformenn saman (Forseti hringir.) og ræða störf þingsins vegna þess að þeim er verulega ábótavant? (Forseti hringir.)