139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:30]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er komið að því að við ræðum Icesave 3 í 3. umr. og það fer hver að verða síðastur að leggja hér orð í belg. Hv. þm. Oddný Harðardóttir, formaður fjárlaganefndar, fór yfir það hvernig fara mundi ef dómsmál tapaðist. Mér þætti ágætt, frú forseti, ef hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar mundi upplýsa okkur um hverjar hún telur líkurnar vera á því að slíkt mál tapist og Bretar og Hollendingar fái fullnægt öllum sínum ýtrustu kröfum. Hverjar telur hv. þingmaður líkurnar vera á því að slíkum kröfum yrði hafnað fyrir dómstólum? Hverjar telur hv. þingmaður líkurnar vera á því að við mundum vinna það mál? Í þriðja lagi fyrir hvaða dómstóli telur hv. þingmaður að slíkt mál, ef af yrði, yrði höfðað?