139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:33]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég bíð spennt eftir að heyra seinna andsvar hv. þingmanns, tíminn er afskaplega stuttur. En miðað við álit þessara sérfræðinga er heldur ekki hægt að útiloka, eins og fram kom í máli hv. þingmanns, að við Íslendingar ynnum málið. Það er atriði sem ég tel að við höfum ekki rætt fyllilega í þinginu. Farið hefur verið ítarlega yfir það hvernig allt gæti farið á versta veg en við höfum eytt minni tíma í að undirbyggja okkar eigin hagsmuni og okkar ýtrustu kröfur. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því að menn hafi ekki forgangsraðað rétt að þessu leyti.

Ég tel, frú forseti, að það væri ágætt ef hv. þingmaður upplýsti okkur betur um það, þar sem hv. þingmaður er ósammála mér og ég verð að bera virðingu fyrir því, hvort slíkar líkur hafi verið kortlagðar að einhverju leyti, hvort líkurnar á því (Forseti hringir.) að kröfum Breta og Hollendinga yrði hafnað fyrir dómstólum hafi verið kortlagðar að einhverju leyti eða að það kæmi til greina að þeim yrði hafnað.