139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég sakna þess að hv. fjárlaganefnd hafi ekki gert líkindamódel. Þetta gera meðalstór fyrirtæki þegar þau fara út í einhverjar framkvæmdir. Landsvirkjun gerði þetta áður en hún fór út í Kárahnjúkavirkjun, virkilega flott líkindamódel, til að átta sig á öllum áhættum. Hraðinn? Það hefur nú sýnt sig að eftir því sem þetta mál þroskast lengur og er lengur í vinnslu lækkar alltaf krafan (Gripið fram í.) og óvissa breytist í vissu og þjóðin græðir. Ég sé ekki hvar tapið liggur þó að við frestuðum þessu fram til 15. júlí til að kíkja hvort það standist raunverulega að þrotabúið fari að greiða.

Hv. þm. Oddný Harðardóttir svaraði ekki spurningu minni um hámarkið, sem ég tel vera mjög mikilvægt. Ef þetta færi yfir 90 milljarða, að ég tali nú ekki um 150 milljarða eða eitthvað slíkt, ræður þjóðin bara ekki við það, hún á ekki til þess gjaldeyri.