139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:40]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar rætt er um 233 milljarða er verið að vitna í þá svörtustu sviðsmynd sem greiningarfyrirtækið GAM Management setti upp. Til þess að það gerist þyrfti að vera 2% veiking á genginu á hverjum ársfjórðungi, seinkun á endurgreiðslum í níu mánuði og 10% lakari endurheimtur. Ég segi fyrir mig að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef eru engar líkur á að þessi svarta sviðsmynd komi upp. En komi hún upp höfum við í fyrsta lagi samið með Brussel-viðmiðin, þau eru tilgreind í samningunum og það er staðfest. Auk þess erum við með efnahagslega fyrirvara og endurskoðunarákvæði í samningunum ef við lendum í meiri hremmingum en við gerum ráð fyrir.