139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef kynnt mér þessa skýrslu þó að ég hafi ekki lært hana utan að, en þar eru upplýsingar sem eru nokkuð jákvæðar. Ég hef líka kynnt mér stefnu fjármálaráðuneytisins í lánamálum sem var sett fram 2. febrúar síðastliðinn.

Varðandi það hvort mér finnist þetta réttlátt eða ekki get ég upplýst hv. þingmann um að mér finnst bara ekkert réttlátt við efnahagshrunið, alls ekki neitt. En hins vegar þurfum við til að koma okkur upp úr þessari efnahagslægð að fara yfir ýmsar hindranir og moka okkur í gegnum skafla. Einn þeirra er lausn á Icesave-deilunni og ekki nóg með það, lausn deilunnar með ásættanlegu samkomulagi við vinaþjóðir er það tannhjól sem skiptir mjög miklu máli í því að við getum látið vélina ganga.