139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[16:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú erum við komin með nýja grýlu í Icesave-málinu. Það er ekki frostavetur eða útskúfun eða slíkt — jú, það er reyndar útskúfun, það er áfellisdómur. Ef við samþykkjum ekki að leggja á framtíðina, á börnin, milljarða á milljarða ofan, yrði það áfellisdómur fyrir íslenska þjóð. Þetta er stórmerkilegt. Kúba norðursins virðist í rauninni vera barnaleikur miðað við nýjustu grýluna sem hv. þm. Oddný Harðardóttir dregur upp.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, vegna þessa áfellisdóms sem hún telur að felist í því að samþykkja ekki þetta ólukkans frumvarp, telur hv. þingmaður að hryðjuverkalögin sem Bretar settu á Íslendinga hafi ekki valdið okkur skaða? Telur hún að þau hafi verið skaðleg fyrir íslenskt orðspor? Hvort telur hv. þingmaður að meiri skaði sé af því að samþykkja ekki þetta Icesave-frumvarp eða að sitja uppi með að vera kallaðir hryðjuverkamenn af Bretum? Er þingmaðurinn þá tilbúinn til (Forseti hringir.) að fara í mál við þá?