139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[17:22]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins taka á þeirri gagnrýni að við höfum ekki tekið tillit til hagnaðar bankanna þegar við mátum hvort þeir hefðu svigrúm. Ég vil bara segja að hagnaðurinn er ekki mjög góður mælikvarði á stöðugleika fjármálakerfisins. Það var gífurlegur hagnaður af starfsemi bankanna í upphafi árs 2008 eða stuttu áður en þeir hrundu en hagnaður er mælikvarði á það sem hefur verið eða fortíðina miklu frekar en framtíðina.

Frú forseti. Við í meiri hluta viðskiptanefndar munum auðvitað fylgjast mjög vel með afkomu viðskiptabankanna. Ef við sjáum áframhaldandi hagnaðartölur af því tagi sem hafa verið að undanförnu munum við að sjálfsögðu láta Fjármálaeftirlitið endurmeta hvort ekki sé hægt að hækka bankaskattinn þannig að ríkið fái meira til sín til greiðslu á Icesave-skuldinni.

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið til að spyrja hv. þm. Þór Saari út í leyniskýrslu sem Seðlabankinn gerði grein fyrir í hv. fjárlaganefnd í gær. Skýrslan er m.a. um skuldir ríkissjóðs. Mig langar að vita hvort Seðlabankinn telji erlendar skuldir ríkissjóðs innan þolmarka og sé þá á sömu línu og mats- eða ráðgjafarfyrirtækið GAMMA hvað það varðar. Ástæða þess að ég spyr þessarar spurningar er sú að ég hafnaði Icesave-samningnum í desember 2009 m.a. vegna þess að ég hafði áhyggjur af skuldaþoli ríkissjóðs. (Forseti hringir.)