139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[17:33]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þór Saari fyrir afar góða ræðu þar sem hann fór yfir stærðirnar í þessu máli. Ég er líka hálfslegin yfir því að nýkomin sé skýrsla frá Seðlabanka Íslands sem ber heitið „Hvað skuldar þjóðin?“ og er trúnaðarmál.

Hér er lagt til að við samþykkjum þessa himinháu skuldabyrði á hendur skattgreiðendum og enn eru að berast gögn og úttektir til fjárlaganefndar sem eru huldar trúnaði. Mig langar þó að vísa aðeins í skýrsluna. Ég var að sjá hana hjá fulltrúa Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd, Höskuldi Þórhallssyni. Það er eins og þetta mál sé hulið þeirri friðhelgi að ekki megi nefna nein af því að aðaleigandi Landsbankans var Björgólfur Thor Björgólfsson. Landsmenn eru undrandi á því að ekki hafi verið sótt að honum með einhverjum hætti vegna þess. Mig langar til að benda á að í skýrslunni stendur, með leyfi forseta:

„Hér hefur verið áætlað að undirliggjandi hrein staða þjóðarbúsins sé neikvæð á bilinu 57–82% af landsframleiðslu í lok árs 2010, en ef eignum og skuldum Actavis er haldið til hliðar er hrein skuld aðeins á bilinu 18–38% af landsframleiðslu í árslok 2010 og minnkar nokkuð hratt árin á eftir.“

Þessi sami eigandi er með alþjóðlegt fyrirtæki hér á landi, með heimilisfesti hér á landi, og það rýrir stöðu Íslands um 44–50% af landsframleiðslu. Þetta er mjög alvarlegt mál. (Forseti hringir.) Ég spyr því þingmanninn: Hvað finnst honum um þá staðreyndir að þarna eru sömu leikendur og persónur og stóðu að baki Landsbankanum, og að ríkið sé að leggja til að þessar skuldir verði ríkisvæddar?