139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég er með fyrir framan mig er það þannig að við þá ákvörðun forseta Íslands að vísa Icesave-deilunni til þjóðaratkvæðagreiðslu lækkaði lánshæfismat, það kemur fram á minnisblaði Seðlabankans til fjárlaganefndar. Matið hefur rokkað upp og niður eftir þessum ákvörðunum, þannig að Icesave-málið hefur haft áhrif á lánshæfismatið.

Í framhaldi af spurningu minni til hv. þingmanns áðan vil ég spyrja hvort hann álíti þá að umsagnaraðilar sem hafa fjallað um málið fyrir fjárlaganefnd, eins og ASÍ og Samtök atvinnulífsins, fari með rangt mál þegar þeir segja að lausn Icesave-deilunnar skipti máli fyrir viðskipti fyrirtækja. Samtök iðnaðarins hafa farið inn á þessa braut líka. Vill hv. þingmaður meina að þeir fari með rangt mál?

Ég bið hv. þingmann um að taka afstöðu til þessarar fullyrðingar: Óvissa og skortur á aðgangi að fjármagnsmörkuðum getur verið verri en slæm skuldastaða.