139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[18:25]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að fara yfir nokkra hluti sem ég hafði ekki tíma til að fara yfir í ræðu minni áðan og gott að velta upp þessari áhættu, áhættunni af því hvort við mundum vinna dómsmálið eða tapa. Ég tel reyndar að allar líkur séu á því að við mundum vinna það dómsmál. En mér finnst áhugaverður punktur hjá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni að velta því upp að staða bankanna í dag skiptir máli. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, Árni Páll Árnason, kom á fund fjárlaganefndar í gær og upplýsti að eiginfjárhlutfall stóru bankanna þriggja væri slæmt. Hann fullyrti á fundi fjárlaganefndar að eiginfjárhlutfall stóru bankanna væri slæmt. Það væri því mjög athyglisvert að fá skoðanir hæstv. fjármálaráðherra, sem situr hér í þingsal, á þessum stóru orðum efnahags- og viðskiptaráðherra á fundi fjárlaganefndar í gær. Hann nefndi líka að þetta væri málefni Fjármálaeftirlitsins og þeir mundu kanna þetta mál frekar. Þetta skiptir máli í Icesave-málinu, ekki aðeins til framtíðar hvað varðar áhættuna heldur líka þegar kemur að því að meta stærstu eign þrotabúsins sem er einmitt skuldabréf frá nýja Landsbankanum yfir í hann gamla.

Ef eiginfjárhlutfall þessara banka er slæmt má leiða að því líkur að fréttir Morgunblaðsins um að bankinn eigi ekki nægan gjaldeyri til að standa undir afborgunum af skuldunum séu réttar. Þetta eru einfaldlega hlutir sem við hefðum átt að skoða. En ég held reyndar líka að ástæðan fyrir því að málið var allt í einu keyrt í gegnum fjárlaganefnd og á að keyra það í gegnum Alþingi sé sú að þetta er óþægilegt mál fyrir stjórnvöld. Þau vilja ekki að frekari upplýsingar komi fram um þetta atriði.