139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[19:01]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það er mér ánægjuefni að svara þessari spurningu sem brunnið hefur á vörum hv. þm. Höskuldar Þórs Þórhallssonar í langan tíma. (Gripið fram í.) Ástæðan var einfaldlega sú sem kom fram í atkvæðaskýringum, ef ég man rétt, við þetta mál og þá afgreiðslu að við tókum fullan þátt í setningu fyrirvaranna. Og svo ég rifji það upp fyrir hv. þingmanni held ég að aðalhöfundur þeirra hafi verið Pétur H. Blöndal. Við bárum fulla ábyrgð á því að þeir fyrirvarar voru settir og studdum það til enda en við lýstum því yfir við atkvæðagreiðsluna að málið eins og það lá fyrir var alfarið á ábyrgð stjórnarmeirihlutans, þannig að það sé sagt.

Það sem ég vil meina í þessu er að við viljum auðvitað ekki semja um hvað sem er. Þetta snýst ekkert um það að við ætlum okkur að gera það. Ábyrgðin liggur hins vegar í þeirri stöðu sem uppi er núna ef við viljum efna í nýtt samkomulag. Sjá einhverjir hv. þingmenn erlendar þjóðir efna í nýtt samkomulag við Íslendinga um hin svokölluðu Icesave-mál ef við höfnum þessu? Ég sé það ekki gerast, a.m.k. ekki miðað við núverandi ríkisstjórnarmunstur. Ekki er ég að mælast til þess að sú ríkisstjórn sem nú er við völd sitji sem lengst, ég vildi gjarnan að það tæki enda sem fyrst. En ég held að meðan ekkert annað er í kortunum verðum við að búa okkur undir að sú stjórn sitji út þetta kjörtímabil. Það vill svo til að af því eru eftir a.m.k. tvö ár. Ég gæti í rauninni alveg trúað þessari stjórn til að framlengja kjörtímabilið miðað við síðustu viðburði á sviði þess hvernig menn þar á bæ virða lög og rétt.