139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

lengd þingfundar.

[19:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég var heima hjá mér í gærkvöldi að borða fisk þegar ég komst allt í einu að því að búið væri að rífa Icesave-málið út úr fjárlaganefnd og að umræða ætti að vera um málið í dag og atkvæðagreiðsla á morgun. Ég hugsa að fátt hafi komið nokkrum jafnmikið á óvart á Íslandi frá því að hæstv. núverandi utanríkisráðherra komst burt og komst að því að það hefði orðið efnahagshrun. [Hlátur í þingsal.] Ég hafði ímyndað mér að á lokasprettinum sýndu menn fram á að þeir hefðu eitthvað lært af þeim tveimur árum sem hafa farið í að reyna að vinna þetta mál almennilega, en svo er ekki. Það á að klára þetta eins og það byrjaði.

Það er ekki aðeins lengri umræðutími sem er ekki leyfður. Ég minni hæstv. forseta á að í umræðu um Icesave 2 taldi ég nauðsynlegt að fara yfir a.m.k. 75 grundvallaratriði málsins. Ef ég ætlaði að gera það á því korteri sem mér er úthlutað núna hefði ég eingöngu 12 sekúndur til að ræða hvert og eitt atriði sem varðar þetta mál. Það er eitt, ég get reynt að tala hratt á eftir, en hitt er algerlega óásættanlegt og það er að keyra eigi málið í gegn með offorsi og (Forseti hringir.) láta hv. þingmenn tala um miðja nótt. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)