139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er aldrei of oft rætt um ábyrgð Íslendinga í þessu máli, hver hún sé og hvort hún sé til staðar. Fram hefur komið í nefndarálitum fulltrúa Hreyfingarinnar í fjárlaganefnd og því hefur verið haldið vel til haga af fulltrúum Hreyfingarinnar að eftir standi í raun þessi spurning: Ber íslensku þjóðinni að taka þessar byrðar á sig? Tekið er fram í nefndarálitum og öðru og á það bent að verulegur vafi leikur á því og í rauninni er sagt að svo sé ekki.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort það hafi gleymst í vinnunni varðandi þennan samning að hafa í huga og standa á því prinsippi að íslensku þjóðinni beri ekki að axla ábyrgð á skuldum einkaaðila. Ef það er þannig að þjóð sé gert að axla slíka ábyrgð, er þá verið að setja fordæmi — ekki bara fyrir Íslendinga heldur hugsanlega aðrar þjóðir — að ríki geti krafið annað ríki um greiðslur vegna tjóns sem einkaaðilar mögulega geta valdið í öðru landi?

Þetta skiptir miklu máli því að ef menn mundu standa hér í lappirnar og láta þetta mál fara dómstólaleiðina yrði dómur vitanlega kveðinn upp um m.a. þetta atriði. Er hægt að heimfæra skuldir einkaaðila yfir á þjóðir?