139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:10]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Mér hafa yfirleitt fundist vera tvær grundvallarspurningar í Icesave og þeim er eiginlega hvorugri svarað. Önnur er hvort við eigum að greiða, og hin er ef við ætlum eða eigum að greiða þetta hvernig í ósköpunum eigum við að fara að því? Þessum tveim spurningum er ósvarað.

Ég gerði tilraun til að svara þeirri seinni, að láta bankakerfið greiða sem bar ábyrgð á þessu, þótt ekki séu að öllu leyti sömu aðilar þar innan húss og áður og þó að þeir sem rændu bankana að innan séu ekki þar við stjórnvölinn þá ber fjármálageirinn á Íslandi gríðarlega ábyrgð. Eigum við að axla þá ábyrgð? Ég segi nei fyrir mig. Það á aldrei að ríkisvæða einkaskuldir, það á aldrei að gera það.

Ef við horfum á þetta í þessu stóra samhengi má horfa á skuldamál heimsins, hvað er mikill hluti af skuldum þjóða tilkominn vegna einkaaðila? Ég held að það sé minni hluti en við vitum hins vegar að stór hluti skulda þriðja heimsins svokallaða er eiginlega arfur frá nýlendutímanum. Ef við horfum t.d. á sögu Haíti erum við með þjóð sem keypti sér frelsi en hún seldi sig aldrei.