139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið.

Nú er það svo að bankarnir, tveir þeirra að minnsta kosti, hafa verið einkavæddir á ný. Ríkisstjórnin sem nú situr, ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar, hefur einkavætt bankana á ný. Við vitum ekki að ég held hverjir eiga þessa banka. Því hefur alla vega ekki verið svarað hér í þingsal. Þrátt fyrir ítarlegar og ítrekaðar spurningar um hverjir eigi bankana hefur því ekki verið svarað og alls konar afsakanir fyrir því að ekki sé hægt að svara því.

Við vitum þar af leiðandi ekki hvort hinir gömlu eigendur bankanna eigi eitthvað í þeim, mikið eða lítið, ég veit það ekki. Ekki er útilokað að þessir fyrrverandi eigendur bankanna, og bankans í þessu tilfelli sem setti okkur í þessa klípu, séu hreinlega komnir með puttana í þá banka sem hafa verið einkavæddir. Því er mjög eðlilegt að ætlast til þess að fjármálageirinn beri þann kostnað sem um er að ræða, enda á hann heima þar en ekki hjá íslensku þjóðinni.

Nú er svo komið að um 25 þúsund einstaklingar hafa skrifað sig á síðu sem heitir kjósum.is þar sem verið er að óska eftir því að þetta mál fari aftur til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeim verður að þakka er standa að þessari síðu, kjósum.is, fyrir að hafa farið af stað með þessa söfnun. Það sýnir sig að mikil andstaða er hjá hinum almenna borgara við að taka á sig byrðar sem honum ber ekki að taka á sig. Því væri forvitnilegt að vita hjá hv. þingmanni í fyrsta lagi hvort hún telji að þessi möguleiki sé fyrir hendi, þ.e. með eignarhaldið á bönkunum. Og í öðru lagi hvort það sé ekki rétt að Alþingi taki þá ákvörðun að vísa þessu til þjóðarinnar í stað þess að setja pressu á (Forseti hringir.) forseta Íslands að gera það.