139. löggjafarþing — 72. fundur,  15. feb. 2011.

samningar um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til breska og hollenska ríkisins.

388. mál
[20:14]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Jú, þetta eru tvær spurningar. Önnur lýtur að þjóðaratkvæðagreiðslunni. Forsetinn vísaði þessu máli til þjóðarinnar og í mínum huga er það enn þá þar. Þjóðin á að klára þetta, á að fá að segja sitt lokaorð. Þess vegna stend ég m.a. að breytingartillögu við frumvarpið um þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. að þetta fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, en ég hef líka skrifað undir á heimasíðunni kjósum.is og var held ég númer 24 til þess. Nú eru komnir um 25 þúsund einstaklingar í viðbót og ég vona svo sannarlega að fleiri bætist í hópinn því að það er ekki hægt að hunsa svona stóran hluta þjóðarinnar.

Þingmaðurinn sagði að bankarnir hefðu verið einkavæddir á ný og við vitum ekki hverjir eiga þá. Við höfum reyndar fengið svar við fyrirspurn hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Við fengum lista yfir kröfuhafa en þeir listar segja okkur ekki neitt, þetta eru eignarhaldsfélög sem heita einhverjum skrýtnum nöfnum og númerum. En þegar manni berast fréttir af afskriftum læðist oft að manni sá grunur að ef fyrrverandi eigendur bankanna og efnahagslífsins eiginlega í heild á Íslandi eigi þá ekki hreinlega enn þá, þá séu þeir einhvers konar skuggastjórnendur þar. Það er eiginlega eina skýringin sem getur verið á þessum afskriftum og oft óskiljanlegu mati bankanna á hverjum þeir selja fyrirtækin.